Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 19:45:04 (6478)

2004-04-15 19:45:04# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[19:45]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þessi umræða er að verða nokkuð spennandi. Það blasir við að ráðherrar í ríkisstjórn verði settir á skólabekk til að læra jafnréttislögin. Ég ætla að gera það að tillögu minni að hæstv. félmrh. sjái um að þeir tornæmustu í jafnréttisfræðunum fái sérkennslu.

Ef við víkjum að þessari þáltill. þá kemur fram í greinargerð með henni að samkvæmt lögum frá árinu 2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, beri félmrh. að leggja fram jafnréttisáætlun til fjögurra ára í senn. Það er hún sem hér er til umfjöllunar. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim markmiðum sem sett eru fram og þeim áhersluatriðum varðandi fræðslu, samþættingu jafnréttissjónarmiða, jafnrétti á vinnumarkaði, jafnréttisáætlanir ráðuneyta, skilgreiningu á hlutverki jafnréttisfulltrúa ráðuneyta, eftirfylgni við framkvæmd áætlana o.s.frv. Þó verð ég að segja að margt af þessu finnst mér svolítið loftkennt og mín tilfinning er sú að stundum sé rétt að segja minna og gera meira.

Reyndar tel ég að umræða um þetta málefni, sem og um mörg önnur, sé mjög mikilvæg. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra. Á sama hátt og mikilvægt er að halda umræðu um atvinnuleysi stöðugt að þinginu og þjóðfélaginu öllu til að halda okkur öllum við efnið, þá á það vissulega einnig við um þennan málaflokk.

Hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að í þessari jafnréttisáætlun væri skerpt á formi og ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Sennilega veitir ekki af í ljósi þess að sumir ráðherrar í ríkisstjórninni virðast telja þennan málaflokk og jafnréttismálin heyra sögunni til, barn síns tíma, eins og það var orðað af hálfu hæstv. dómsmrh. Það hefur skiljanlega vakið nokkra umræðu í þjóðfélaginu.

Ég ætla að staðnæmast við eitt atriði sérstaklega, þ.e. launamálin. Að þeim er vikið í tillögunni í tveimur liðum, 17. og 19. lið. Þar er annars vegar fjallað um kynbundinn launamun og hins vegar um úttekt á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun kvenna og karla.

Varðandi fyrra atriðið segir að meta skuli hugsanlegar aðferðir og leiðir til að koma í veg fyrir kynbundinn launamun. Nefnd verði skipuð sem meti aðferðir til að mæla kynbundinn launamun og lýkur störfum hennar með skýrslu til félmrh. Markmið samkvæmt greinargerð er að finna þá aðferð sem er líklegust til að koma í veg fyrir kynbundinn launamun.

Um þetta er ekkert nema gott að segja. En svona hefur þetta verið orðað árum ef ekki áratugum saman. Úrræðin eru þekkt, t.d. kynhlutlaust starfsmat. Það er ein leið til að draga úr launamun kynjanna. Það er hægt að koma á launapottum, þ.e. greiðslum til að rétta sérstaklega hlut kvenna. Um þetta hefur reyndar verið samið. Ég vísa þar t.d. í samninga Starfsmannafélags ríkisins við fjmrn. í síðustu kjarasamningum þeirra aðila.

Reyndar er svolítið skondið, og læt ég hugann reika aftur til ársins 1996 þegar undirbúið var af hálfu þáverandi hæstv. fjmrh. að koma hér á nýju launakerfi með umtalsverðum tilheyrandi lagabreytingum og breytingum á öllu samningsforminu, að þá var gengið út frá því að dregið yrði úr miðstýringu launakerfisins, samningar færðir inn á stofnanir og viti menn, vald forstöðumanna, vald forstjóra til að ákvarða einhliða launin yrðu aukin stórlega. Tekist var á um þetta í þingsölum löngum stundum. Ég tók af talsvert miklum áhuga þátt í þeirri umræðu.

Ráðleggingar sérfræðinga í jafnréttismálum, innlendra og erlendra, voru allar á þann veg að þessa leið ættum við ekki að fara ef við vildum draga úr launamun kynjanna. Ég man eftir Anitu Harriman sem kom hingað á vegum Jafnréttisráðs á þeim tíma. Hún varaði við þessari aðferð. Hún talaði fyrir kynhlutlausu starfsmati sem látið yrði ná til allra launa, einnig hvers kyns viðbótarlauna ofan á föst grunnlaun. Fjmrn. og þáv. hæstv. fjmrh. þrýstu hins vegar mjög á um að fá sínu framgengt. Það varð hins vegar ekki ofan á vegna andstöðu verkalýðshreyfingarinnar og stéttarfélaganna.

Hvers vegna er ég að rifja þetta upp? Ég er að rifja þetta upp vegna þess að í málflutningi ríkisstjórnarinnar á þeim tíma og í greinargerð með frv. um breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem ég vísa hér til, var sérstaklega tekið fram að allt þetta væri gert til að draga úr launamun kynjanna. Með öðrum orðum: Menn segja eitt en framkvæma allt annað.

Frá því að nýju launakerfi var komið á, með samningum árið 1997, hefur verið talað um það nær árlega að gerð verði ítarleg könnun á áhrifum hins nýja launakerfis á launamun kynjanna. Og viti menn, hér er ég kominn að því atriði sem ég nefndi, í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar segir eina ferðina enn að úttekt verði gerð á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun karla og kvenna. Þetta hefur staðið til að gera árum saman. Núverandi hæstv. félmrh. hefur nýlega tekið við því ráðherraembætti. Ég er hins vegar að vísa í ábyrgð ríkisstjórnarinnar, að hún hefur ekki staðið við fyrri skuldbindingar sínar um þetta efni. Það sem meira er, iðulega stangast á orð og athafnir.