Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 19:53:23 (6479)

2004-04-15 19:53:23# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[19:53]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Sú meginregla gildir í íslensku réttarkerfi að allir skuli jafnir fyrir lögum, óháð kynferði. Jöfn staða kynjanna hefur verið stjórnarskrárbundin á Íslandi frá árinu 1995 auk þess sem sérstök jafnréttislög hafa verið í gildi allt frá árinu 1976.

Jafnréttislög hafa almennt verið viðurkennd sem mikilvægt tæki til að styrkja jafnréttisstarf og standa vörð um jafnrétti í samfélaginu þótt fulltrúar æðsta stjórnvalds okkar hafi leyft sér að gera lítið úr þeim með neikvæðum yfirlýsingum eins og frægt er orðið að endemum.

Markvissu jafnréttisstarfi er ætlað að breyta viðhorfum fólks til hefðbundinna kynjahlutverka og kynjabundinna staðalmynda. Óhætt er að fullyrða að stjórnvöld geti ráðið úrslitum um þróun jafnréttisstarfs, m.a. með því að framfylgja markvissum áætlunum þar að lútandi.

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa ánægju með skýra framsetningu áætlunarinnar sem lögð er fram í þessari þáltill. sem við ræðum hér og nú. Einstök verkefni eru skýrt afmörkuð, meginhugmynd þeirra er tilgreind, sömuleiðis markmið, hvaða ráðuneyti eða aðrar stofnanir stjórnsýslunnar beri ábyrgð á framkvæmdinni, hverjir séu þátttakendur og hver sé áætlaður kostnaður.

Þetta lítur svo sem ágætlega út, a.m.k. hér á pappírnum. Við skulum vona að betur takist til með þessa áætlun en síðustu framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2002--2004. Eins og skýrt kemur fram í inngangi með þessari þáltill. um jafnréttisáætlun til næstu fjögurra ára kemur fram að hvorki hafi tekist að þróa boðuð störf jafnréttisfulltrúa né auka hlutfall kvenna í opinberum ráðum, nefndum og stjórnum. Þetta sýnir hið fornkveðna, að sjaldnast er nóg að yfirlýstur pólitískur vilji sé fyrir hendi til góðra verka, það eru verkin sem tala. En nóg um það í bili.

Herra forseti. Varðandi skilgreiningu á einstökum verkefnum langar mig til að benda á eitt. Það ætti að skilgreina tímaáætlanir einstakra verkefna nánar en gert er til að unnt sé að fylgjast betur með framvindu verkefna, veita þeim aðhald sem eiga að sjá til að þau séu framkvæmd. Á heildina litið, herra forseti, tel ég að stefnumörkun jafnréttisáætlunarinnar sé góð. Ástæða er til að fagna sérstaklega því tilraunverkefni sem greint er frá í lið 12 í þáltill., Jafnréttisumsagnir stjórnarfrumvarpa. Ef litið er á verkefnislýsinguna á bls. 12 kemur í ljós að gera á tilraun til að gefa jafnréttisumsagnir um nokkur stjórnarfrumvörp frá þremur ráðuneytum, sem reyndar eru ekki tilgreind sem mér finnst miður. En það verður athyglisvert og forvitnilegt að fylgjast með þessu tilraunastarfi.

Við sjáum að verkefnin lúta að flestum ráðuneytum, að landbrn., umhvn. og samgrn. undanskildum. Forvitnilegt væri að fá skýringu hæstv. félmrh. á því hvað veldur þessu.

Mig langar, herra forseti, að gera nokkrar athugasemdir og varpa fram nokkrum spurningum í leiðinni. Í jafnréttisáætluninni er ekki að sjá að samstarfsverkefni félmrn. og iðnrn. um að styrkja stöðu kvenna á landsbyggðinni verði fram haldið. Í skýrslu um stöðu framkvæmdaáætlunar er erfitt að sjá hver er staða þess verkefnis. Er því t.d. lokið og þá hvernig? Hið sama á reyndar við um fleiri verkefni. Á skýrslunni er erfitt að sjá greinilega hvernig verkefnum miðar.

Tökum til að mynda verkefni kvenna í landbúnaði, sem tilgreint er í skýrslu félmrh. Þar er verkefni sem hefur vakið athygli fyrir líflega og skemmtilega framsetningu. Frá því er greint á bls. 27. Þetta er verkefni sem gengur út á, að mér skilst, að stofnuð hafi verið grasrótarhreyfing, Lifandi landbúnaður -- Gullið heima. Það á að hafa það markmið að jafna hlut kvenna og karla í landbúnaði. Þetta verkefni er nefnt í skýrslu hæstv. félmrh. en er ekki í nýju jafnréttisáætluninni. Í skýrslunni kemur fram að í gegnum þetta verkefni eigi herferð um landið að hefjast um næstu áramót. En mig langar að spyrja hæstv. félmrh.: Hver er staða þessa verkefnis í dag? Telst því lokið þótt þessi herferð sé ekki hafin og rúmt hálft ár í það ef ég skil þetta rétt?

Í lið 34 í þáltill., Jafnréttiskennsla í skólum, er fyrst og fremst verið að horfa til mismunandi náms og starfsvals pilta og stúlkna, sem er í sjálfu sér gott. En nýverið kom út skýrsla sem unnin var á vegum Rannsókna og greiningar ehf. Sú skýrsla fjallaði um brottfall pilta úr framhaldsskólum. Það er mjög alvarlegt vandamál sem okkur í Frjálsl. finnst að fá ætti miklu meiri athygli. Við teljum reyndar nauðsynlegt að benda á að sjálfsagt sé að líta nánar á það, t.d. undir þessum lið, Jafnréttiskennsla í skólum. Jafnrétti varðar líka karlmenn og pilta.

Ég geri einnig athugasemdir við liði 38 og 39 sem falla undir sjútvrn., varðandi úttektir á störfum kvenna í sjávarútvegsfyrirtækjum. Þar ber að athuga varðandi smærri fjölskyldufyrirtæki að það er algengt að konur starfi þar ásamt eiginmönnum þó að þær séu ekki skráðar sem eigendur. Það er mikilvægt að láta það ekki villa sér sýn. Það þarf að muna eftir því.

Síðan er það staða útlendinga, t.d. erlendra kvenna. Það er ekki orð um það í þáltill. Það er mjög furðulegt í ljósi þess að útlendingum hér á landi fjölgar mjög ört. Við erum hér að ræða um áætlun til framtíðar. Erlendar konur hafa til að mynda þegar stofnað með sér félag erlendra kvenna hér á landi.

Ég nefndi áðan skýrslu um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti kynjanna fyrir tímabilið 2002--2004. Henni hefur verið dreift á þinginu þótt hún sé ekki endilega á dagskrá núna. Af lestri þeirrar skýrslu er erfitt að meta hver árangur framkvæmdaáætlunarinnar var en þó er ljóst að staðan hefur lítið breyst til hins betra varðandi jafnara hlutfall kynjanna í æðstu stöðum og í nefndum og ráðum á vegum sumra ráðuneyta, eins og ég nefndi reyndar fyrr í ræðu minni. Það er ljóst að ganga þarf betur eftir því að jafnréttisáætlanir séu virtar. Það er jákvætt í þeirri þáltill. sem hér er til umfjöllunar að staða og hlutverk jafnréttisfulltrúa ráðuneyta skuli skilgreind nánar samanber verkefni ríkisstjórnarinnar, 5. liður, Skilgreining á hlutverki jafnréttisfulltrúa ráðuneyta, og 6. liður, Eftirfylgni með framkvæmdaáætlun, sem ætlað er að tryggja að raunverulegur árangur náist.

Við í þingflokki Frjálsl. fögnum þessari till. til þál. frá hæstv. félmrh. Við munum ekki liggja á liði okkar í því markmiði að raunverulegur árangur náist í jafnréttismálum.