2004-04-16 10:43:20# 130. lþ. 98.95 fundur 477#B álit kærunefndar jafnréttismála um skipan hæstaréttardómara og viðbrögð dómsmálaráðherra# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[10:43]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. málshefjanda í þessari umræðu, að mál það sem hér er fjallað um er áfall fyrir réttarkerfið og áfall fyrir jafnréttisbaráttuna. Ummæli ráðherra og svör við fyrirspurnum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur eru sannarlega ekki til að hrópa húrra fyrir, þau eru með endemum.

Hæstv. ráðherra verður að horfast í augu við það að hann hefur ekki frjálsar hendur í þessum efnum. Hann er bundinn af löggjöf sem samþykkt hefur verið á Alþingi og löggjöfin er sett til þess að leiðbeina okkur og leiðrétta það misrétti sem okkur á löggjafarsamkundunni og þjóðinni hefur þótt vera til staðar í jafnréttismálum. Þessari löggjöf er ætlað að tryggja það að konur eigi jafnan möguleika í samfélaginu á við karla, sjá til þess að sjónarmið þeirra séu jafnrétthá við stjórn landsins og sjónarmið karla á vettvangi löggjafarsamkundunnar, á vettvangi framkvæmdarvaldsins og á vettvangi dómsvaldsins. Við höfum sett þessar hugmyndir í lög til þess að ná fram þeim markmiðum sem við höfum komið okkur saman um að séu eftirsóknarverð og æskileg. Við höfum skuldbundið okkur á alþjóðavettvangi til að breyta stöðu kvenna í samfélagi okkar og við tökum þátt í samstarfi þjóðanna til þess að ná þeim markmiðum. Tilgangurinn er að breyta þeim veruleika sem við búum við, breyta þeim hlutföllum sem ríkja milli karla og kvenna á Alþingi. Af 63 þingmönnum eru 20 konur. Við viljum breyta þeim hlutföllum og höfum bundið þann vilja okkar í lög. Af 12 ráðherrum eru einungis þrjár konur. Við viljum breyta þeim hlutföllum og í Hæstarétti hafa frá upphafi setið 40 dómarar, 38 karlar og 2 konur. 22. gr. jafnréttislaganna gengur út frá því að hæstv. ráðherra eigi að hafa hliðsjón af þessum sjónarmiðum við ráðningu í stöður.

Svör hæstv. ráðherra hafa verið með endemum og er það ekki góður vitnisburður fyrir Sjálfstfl. sem kemur frá þingmönnum hans og ráðherrum í þessu máli þar sem menn segja að hæstv. ráðherra hafi haft málefnaleg rök fyrir því að brjóta jafnréttislöggjöfina.