2004-04-16 10:55:59# 130. lþ. 98.95 fundur 477#B álit kærunefndar jafnréttismála um skipan hæstaréttardómara og viðbrögð dómsmálaráðherra# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Fyrir um 2.400 árum komst grískur heimspekingur að þeirri niðurstöðu að það væri rétt að hlíta ranglátum dómi og rökin voru eitthvað á þá leið að innviðir þjóðfélagsins væru einstaklingnum æðri. Nú er kominn fram á sjónarsvið mannkynssögunnar stór snillingur sem hefur komist að allt annarri niðurstöðu, sjálfur hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason, en hann kemst að því eftir vandlega íhugun að hann eigi ekki að fara eftir úreltum lögum. Nú vaknar sú spurning hvort það séu fleiri úrelt lög sem ekki beri að fara eftir og jafnvel hvort þessi regla gildi eingöngu um stórsnillinga og djúpvitra menn, svo sem hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason.

Það sem er einna verst við þetta lögbrot hæstv. dómsmrh. Björns Bjarnasonar er að hann er að draga Hæstarétt inn í flokkspólitíska umræðu og jafnvel umræðu um ættartengsl. Það er með ólíkindum. Og það hlýtur að vera erfið staða fyrir réttinn og stjórnskipan landsins að deilur séu um hvort verið sé að skipa yfir höfuð hæfasta einstakling í réttinn. En það sem er þó einna skást við þessa umræðu er að Sjálfstfl. hefur endanlega afhjúpað valdhroka og vanvirðingu gagnvart þeim málaflokki sem jafnréttismálin eru. Stjórnvöld eiga að vera leiðandi í jafnréttisþróun og því er mjög alvarlegt að sjálfur dómsmrh. landsins vanvirði jafnréttislög sem hann setti sjálfur.

Í umræðu um málið í fjölmiðlum síðustu daga hefur hæstv. dómsmrh. sýnt að hann tekur engum rökum og það má kalla það að hann sé alveg rökheldur. Maður fer að efast um það þegar menn eru algerlega rökheldir hvort hægt sé yfir höfuð að rökræða við slíka einstaklinga.