2004-04-16 11:00:10# 130. lþ. 98.95 fundur 477#B álit kærunefndar jafnréttismála um skipan hæstaréttardómara og viðbrögð dómsmálaráðherra# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[11:00]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Á undanförnum áratugum hafa konur sótt fram á öllum sviðum þjóðlífsins. Atvinnuþátttaka kvenna hér á landi og sókn þeirra í háskólanám og hvers kyns framhaldsnám sýnir þetta hvað best. Stærsta jafnréttismálið á seinni árum er tvímælalaust fæðingarorlofslögin þar sem fullkomið jafnrétti er tryggt milli kynjanna. Jafnréttislögin hér á landi tryggja hinn lagalega ramma um jafnrétti. Sú löggjöf er bæði afar merkileg og mikilvæg og er raunar mjög gildur þáttur í nútímalýðræðislegu þjóðfélagi þar sem einstaklingum eru tryggð tækifæri á jafnréttisgrundvelli í lífi og starfi. Eðli málsins samkvæmt er nauðsynlegt að slík löggjöf sé endurskoðuð reglulega og metið hvort lögin hafi skilað tilgangi sínum. Það er einfaldlega hluti af lýðræðislegri og nauðsynlegri umræðu um þennan málaflokk sem skiptir svo miklu máli fyrir okkur öll.

Óútskýrður kynbundinn launamunur er enn til staðar þrátt fyrir stóraukna menntun kvenna og hvað hann snertir er alveg ljóst að lögin hafa ekki skilað tilgangi sínum. Það er stórt og brýnt verkefni fyrir atvinnulífið og hið opinbera að vinna bót á því.

Ein af veigamestu breytingunum sem gerð var frá fyrri löggjöf við endurskoðun laganna árið 2000 snertir hlutverk og starf kærunefndar jafnréttismála. Hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason hefur nú gagnrýnt þau ákvæði gildandi laga og túlkun kærunefndar á þeim í áliti hennar á veitingu á stöðu hæstaréttardómara sl. sumar. Hann hefur fært fram málefnaleg rök fyrir þeirri skoðun sinni. Það er mikið umhugsunarefni að umræðan sem hefur fylgt í kjölfarið er öll í upphrópunarstíl og lítill vilji hefur verið til þess af stjórnarandstöðunni á þingi að ræða málin á málefnalegan hátt. Við verðum alltaf í allri slíkri umræðu að virða rétt hvers annars til að tjá skoðanir okkar. Það er grundvallarréttur í lýðræðislegu þjóðfélagi sem aldrei verður frá okkur tekinn og málefnaleg umræða um brýn og mikilvæg mál er nauðsynleg og alltaf af hinu góða.