2004-04-16 11:04:49# 130. lþ. 98.95 fundur 477#B álit kærunefndar jafnréttismála um skipan hæstaréttardómara og viðbrögð dómsmálaráðherra# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[11:04]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það hefur lítið nýtt komið fram í þessum umræðum, eins og þingmenn hafa heyrt, annað en upphrópanir og ásakanir í minn garð um lögbrot og annað slíkt. Þó að kærunefnd jafnréttismála sé lögbundin nefnd eru orð hennar ekki lög. Það er alltaf verið að túlka lög og alltaf verið að segja álit á lögum. Hæstiréttur hefur sagt að kærunefndin hafi rangt fyrir sér. Það er enginn að fjalla um að það hafi verið framið lögbrot á þeim sem sitja í kærunefndinni þótt Hæstiréttur hafi sagt að kærunefndin hafi komist að rangri niðurstöðu.

Hv. málshefjandi Jóhanna Sigurðardóttir var félmrh., ráðherra vinnuréttar í ríkisstjórn, sem nam kjarasamninga úr gildi með bráðabirgðalögum. Síðan kom Hæstiréttur saman og taldi að bráðabirgðalögin hefðu brotið í bága við stjórnarskrána. Hvar er ábyrgð ráðherrans í því þegar um þessi mál er fjallað? Hæstiréttur er að fjalla um héraðsdóma og kemst að þeirri niðurstöðu að héraðsdómarinn hafi komist að annarri niðurstöðu en rétt sé miðað við lögin, fara menn þá að fjalla um hvort héraðsdómarinn sé lögbrjótur eða ekki? Það er alltaf verið að túlka lög, alltaf verið að leggja út af lögum. Það sem ég er að segja í þessu máli er, að ef álit kærunefndar jafnréttismála byggist á því að henni er nauðugur einn kostur að grípa fram fyrir hendur á veitingarvaldshafanum er nauðsynlegt að líta til laganna.