Lögreglulög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 11:06:47 (6504)

2004-04-16 11:06:47# 130. lþ. 98.15 fundur 870. mál: #A lögreglulög# (tæknirannsóknir o.fl.) frv. 56/2004, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996. Frumvarpið er samið í dómsmrn. í framhaldi af tillögum vinnuhóps sem ríkislögreglustjóri skipaði til að móta framtíðarstefnu tæknirannsókna lögreglu.

Í frv. er lagt til að í stað þess að ríkislögreglustjóri starfræki tæknirannsóknastofu verði tæknideild lögreglustjórans í Reykjavík efld og styrkt. Gert er ráð fyrir að e-lið 2. mgr. 5. gr. laganna verði breytt þannig að hlutverk rannsóknastofu ríkislögreglustjóra verði að hafa eftirlit með framkvæmd tæknirannsókna lögreglu, hafa umsjón með rekstri miðlægra gagnagrunna vegna tæknirannsókna, hafa samskipti við erlend ríki vegna tæknirannsókna, að fylgjast með nýjungum og framþróun tæknirannsókna og miðla þeim til lögreglu.

Þá er gert ráð fyrir að 4. mgr. 8. gr. verði breytt þannig að tæknideild lögreglustjórans í Reykjavík fái aukin verkefni. Samkvæmt gildandi lögum annast tæknideildin vettvangsrannsóknir og aðrar slíkar rannsóknir en hér er lagt til að tæknideild lögreglustjórans í Reykjavík sinni einnig samanburðarrannsóknum og varðveiti fingrafarasafn og ljósmyndasafn lögreglu og haldi þeim söfnum við.

Með frv. er verið að sameina þekkingu á sviði tæknirannsókna og tækjabúnaðar á einn stað sem mun tvímælalaust leiða til hagkvæmni og þess að eftirlit með tæknirannsóknum verður markvissara af hálfu ríkislögreglustjóra.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.