Lögreglulög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 11:17:11 (6508)

2004-04-16 11:17:11# 130. lþ. 98.15 fundur 870. mál: #A lögreglulög# (tæknirannsóknir o.fl.) frv. 56/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og viðbrögð hans. Ég er tiltölulega sáttur við þau. Mér fannst mikilvægt að heyra að hæstv. ráðherra væri hugsi yfir þessum málum. Ég hygg að við séum í aðalatriðum sammála um að það sé brýnt viðfangsefni að fara yfir það í heild sinni hvernig með allar þær gríðarlegu upplýsingar sem nú er verið safna, sem hefur stóraukist jafnvel á allra síðustu mánuðum og missirum af ýmsum ástæðum sem við þekkjum, verði farið og hvernig þær verði geymdar. Athuga þarf hvernig þær verði meðhöndlaðar, hvernig persónuvernd verði tryggð og henni fyrir komið, gagnstætt aftur hinu, þörf eða áhuga stjórnvalda, t.d. við vissar aðstæður, á að geta sannreynt svona upplýsingar og dregið út úr þeim upplýsingar um ferðir manna og annað í þeim dúr.

Hér er mjög stórt og mikilvægt atriði á ferðinni. Mér er nær að halda að það geti verið fullt tilefni til að tekin verði saman skýrsla um þessi mál eða t.d. að sérstök starfsnefnd fari í það. Það er gagnlegt að allshn., í tengslum við umfjöllun um þessi mál sem hér eru á dagskrá og þau sem á eftir koma, fari yfir þessi mál og fái um það minnisblöð frá ráðuneyti. Ég held að þessi málaflokkur kalli greinilega á athygli á komandi mánuðum og missirum og vel geti farið svo að menn þurfi að grípa til ráðstafana, jafnvel lagalegra eða praktískra ráðstafana til að koma þessum málum í traustan farveg hjá okkur.

Mál þetta er alls staðar á dagskrá í nágrannalöndunum, hvernig með þessa hluti skuli farið í ljósi hinnar auknu upplýsingasöfnunar, að ógleymdri tækninni sem komin er til sögunnar og gerir kleift að geyma gríðarlegt magn upplýsinga, nánast ótakmarkað magn upplýsinga sem er ekki endilega og í raun alls ekki það sem við óskum eftir í mörgum tilvikum.