Meðferð opinberra mála

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 11:19:36 (6509)

2004-04-16 11:19:36# 130. lþ. 98.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[11:19]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Breytingarnar varða annars vegar rannsókn lögreglu og hins vegar vitnavernd lögreglu. Tilgangur þeirra er liður í þeirri viðleitni að efla öryggi lögreglumanna og að lögreglan nái sem bestum árangri í störfum sínum og þar með að auka öryggi hins almenna borgara.

Í 2. og 3. gr. frv. eru ákvæði um vitnavernd lögreglumanna. Þau eru nauðsynleg til að lögreglumenn geti notið verndar gegn ógn sem þeim og fjölskyldum þeirra getur stafað af sakborningum og öðrum þannig að nafn viðkomandi lögreglumanns komi ekki fram í lögregluskýrslu þegar sakarefnið er með þeim hætti að öryggi þess sem gerir skýrslu eða sinnir annars rannsóknaraðgerð geti stafað alvarleg ógn af því að sakborningur eða aðrir þekki nafn hans. Liggja skuli fyrir hvaða lögreglumaður gerir skýrsluna en aðeins sá sem rannsókn stýrir hafi aðgang að þeim upplýsingum, svo og ákærandi og dómari þegar mál kemur til kasta þeirra.

Einnig er gert ráð fyrir að dómari geti samkvæmt kröfu ákveðið að sakborningi verði vikið úr þinghaldi meðan skýrsla vitnis er tekin ef ætla megi að öryggi vitnisins geti stafað alvarleg ógn af því að sakborningur geti komist með nærveru sinni að raun um persónueinkenni þess, enda sé þá um leið gætt leyndar um nafn vitnisins.

Enn fremur er lagt til að dómari geti samkvæmt kröfu ákveðið að vitni sem kemur fyrir dóm láti ekki uppi nafn sitt eða annað sem varðar persónu vitnisins í heyranda hljóði. Skilyrði þess er að vörn sakbornings spillist ekki af þeim sökum svo máli skipti og dómara verði greint bréflega frá nafni vitnisins og öðrum atriðum sem leynd er um varðandi vitnið.

Þessar breytingar er varða vernd vitna fyrir dómi eiga við um þau vitni sem ekki hafa komið fram undir nafni við rannsókn máls og eiga þannig við um þá lögreglumenn sem geta notið nafnleyndar við rannsókn máls.

Breytingar frv. er lúta að því að auðvelda rannsókn lögreglu eru þrenns konar. Í fyrsta lagi er um að ræða tiltekna takmörkun á aðgangi verjanda að gögnum meðan á rannsókn máls stendur. Samkvæmt núgildandi lögum getur sakborningur kynnt sér öll málsskjöl á meðan rannsókn máls stendur, þar með taldar framburðarskýrslur annarra sakborninga og vitna og þar með hagrætt framburði sínum. Tímafrestur laganna til að halda gögnum frá sakborningi er mjög takmarkaður, frá einni viku sem hægt er að framlengja í allt að þrjár vikur. Í 1. gr. frv. er lögð til breyting á þessu þannig að telji lögregla að það geti torveldað eða skaðað rannsókn málsins að gögn eða upplýsingar komist til vitundar sakbornings geti hún neitað að veita verjanda aðgang að gögnunum. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að bera megi synjun lögreglu undir dómara og er það því undir mati dómara komið hvenær lögreglu ber að afhenda verjanda gögnin.

Í öðru lagi er í 3. gr. frv. lagt til að lögreglu verði heimilað að taka skýrslur af sakborningum og vitnum upp á hljóðband, myndband eða mynddisk en slíkar heimildir er ekki að finna í núgildandi lögum. Það er lagt til að fengnum tillögum nefndar sem skipuð var af dómsmrn. til að fara fyrir skipan reglna um hljóðritun lögregluyfirheyrslna. Ítarlega umfjöllun um þá tillögu er að finna í greinargerð með frv. og vísa ég til þess sem þar segir.

Þá er í þriðja lagi lagt til í 6. gr. frv. að handhafi ákæruvalds geti ákveðið að símhlustun skuli fara fram án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði um símhlustun og öðrum aðgerðum samkvæmt 86. gr. laganna geti valdið sakarspjöllum. Í frv. er gert ráð fyrir að leitað verði úrskurðar dómstóls um ákvörðunina eins fljótt og unnt er og ávallt innan sólarhrings frá því að ákvörðun um símhlustun er tekin. Komist dómari að þeirri niðurstöðu að ekki hafi átt að hefja aðgerð skal hann senda tilkynningu um það til dómsmrh.

Þessi brtt. tekur mið af nýrri tækni og umhverfi símnotkunar og því að tíð skipti á símum og númerum hjá þeim sem sæta hlustun hafa orðið til réttarspjalla. Þegar núgildandi ákvæði var samið var símnotkun með allt öðru móti. Hafa verður í huga að úrskurður um símhlustun kveður á um hlustun á samtali við tiltekið símanúmer eða tiltekið fjarskiptatæki en ekki símtöl ákveðins aðila í ótilteknum símum.

Virðulegi forseti. Símhlustanir eru einhver öflugasta leiðin til að upplýsa afbrot. Allt sem gert er til að bregða fæti fyrir að lögregla geti nýtt sér þessa leið innan skýrra lagamarka er til hagsbóta fyrir lögbrjóta. Svo einfalt er þetta mál. Lögreglan nýtur mikils trausts og hefur það ekki síst skapast af því að lögreglan fer af hófsemd og virðingu með það vald sem henni er veitt. Á því er tekið af fullum þunga ef út af er brugðið. Engin ástæða er til að ætla að þessi heimild veiti lögreglunni óhóflegt vald og stendur hún, að óbreyttum lögum, í raun verr að vígi en starfsfélagar í nágrannalöndum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.