Meðferð opinberra mála

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 11:59:56 (6513)

2004-04-16 11:59:56# 130. lþ. 98.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[11:59]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Í frv. er að mínu áliti hreyft mjög veigamiklum atriðum hvað varðar réttarkerfi okkar og kannski fyrst og síðast vekja þessi atriði mann til umhugsunar um hversu breytt umhverfi það er sem við lifum í á þessum síðustu og verstu tímum. Ég hugsa ekki að mörg okkar hafi látið sér til hugar koma fyrir um 10 árum eða fyrir um 15 árum að til þess þyrfti að koma í okkar litla landi að setja lög til þess að tryggja nafnleysi lögreglumanna, til þess að tryggja að vitni fengju með óbeinum hætti vitnavernd og gætu vitnað án þess að gera það undir nafni. Þetta færir okkur heim sanninn um að við lifum því miður í gjörbreyttum heimi og ný tíðindi á síðustu mánuðum og missirum segja okkur að alþjóðlegar glæpaklíkur eru farnar að láta til sín taka hér á landi og aðferðir og nálgun þeirra sem eru með einbeittan brotavilja svífast einskis.

Að þessum formála sögðum vil ég segja, herra forseti, að mál af þeim toga sem hér um ræðir eru ekki þannig úr garði gerð að fólk skiptist eftir flokkum í afstöðu til þeirra eða að stjórn og stjórnarandstaða fari í sínar hefðbundnu skotgrafir. Ég hef verulegan skilning á þeim atriðum sem hér eru nefnd til sögu, ekki síst vegna þess að ég þekki dálítið til þeirra, og gef mér að hæstv. dómsmrh., dómsmrn., lögreglan og þingflokkar stjórnarflokkanna, sem væntanlega blessa þetta mál, færu ekki fram með mál af þessum toga nema brýna nauðsyn bæri til. Ég held að það detti ekki nokkrum manni í hug að koma fram með efnisatriði af þeim toga sem hér um ræðir án þess að einhverjar ástæður liggi þar að baki. Það þykir mér vera hinn rauði þráður í málinu og grundvallaratriði þess.

Ég get fyllilega tekið undir með þeim sem hér hafa talað og sagt sem svo að aðgát skuli höfð í nærveru sálar og að menn skuli gæta mjög vel að sér þegar kemur að réttindum og mannréttindum, vil ég segja, meintra sakborninga. En hann er vandrataður þessi gullni meðalvegur milli meintra sakborninga og réttinda þeirra, og í því efni gleymist gjarnan réttur hugsanlegra fórnarlamba. Við höfum öll lent í því, hvert og eitt fyrir sig, bæði í þessum sal og utan hans, að hrópa hátt og mikið um mikilvægi þess að lögreglan hafi þau tæki og tól í höndum sínum til þess að bregðast við fólskulegum glæpaverkum þegar það á við, en snúum svo gjarnan við blaði daginn eftir þegar menn líta á aðra þætti málsins, og þá á ég við réttindi meintra sakborninga. Hann er því vandrataður þessi meðalvegur, en að minni hyggju finnst mér í meginatriðum að þau atriði sem hér um ræðir séu þess eðlis að hann sé rétt fetaður.

Hér hafa menn staldrað, eðli máls samkvæmt, fyrst og síðast við auknar heimildir lögreglu til símhlerana og heimild lögreglu að uppfylltum skilyrðum til að ráðast í hleranir án þess að atbeina dómara gæti, þ.e. á fyrsta sólarhring. Það er vissulega rétt að menn eru að fara yfir tiltekinn þröskuld í þessum efnum en á sama hátt kemur mér ekki til hugar að lögreglan, saksóknari, dómsmrn. og dómsmrh. fari fram með slíka ósk án þess að fullar ástæður liggi þar að baki. Málin ganga einu sinni þannig fyrir sig, án þess að ég kunni gjörla að rekja þau, að tíminn er það sem öllu skiptir þegar rannsókn mála er annars vegar. Þegar upplýsingar berast um ætluð brotaverk er ekki meintur brotamaður á klukkunni og bíður þess sem verða vill í herbúðum lögreglu. Ég hef því skilning á því að lögreglan geti brugðist við frá fyrstu sekúndu, frá fyrstu mínútu, með rökstuddum hætti að ráðast í að rannsaka mál með öllum þeim ráðum sem tiltæk eru.

Ég vek athygli á því að innan sólarhrings er lögregluyfirvöldum ætlað að sækja og rökstyðja hleranirnar með beiðni um framhald þeirra eftir efnum og ástæðum og dómari úrskurði síðan um það. Ef dómari metur það svo að þessi sólarhringur hafi liðið og hleranir hafi verið viðhafðar án þess að nægilegar ástæður væru fyrir hendi eru þær hleranir ómark, þær hafa ekki gildi lengur og eru ekki gagn í viðkomandi máli hvorki þá né síðar.

Ég vek einnig athygli á því að sett eru þau axlabönd á þetta, að verði mikið um að dómarar hafni og meti ástæður lögreglu ekki nægilega gildar skuli það tilkynnt réttbærum yfirvöldum, þ.e. dómsmrh. og slíkt vistað. Ég gef mér að menn fari ekki í mörg ferðalög af þeim toga ef höfnun dómara verður ítrekuð og kannski oftar en ekki.

Meginatriðið er að menn geti brugðist hratt og vel við. Það er því miður ekki þannig eins og menn hafa verið að halda fram að það sé eitthvert vinstrihandarverk og taki einhverjar mínútur eða klukkutíma að rökstyðja beiðni til dómara. Það skiptir yfirleitt meiru en einhverjum tveimur, þremur klukkutímum, það getur tekið heilan sólarhring, og hvað gerist á meðan? Ég hef því, herra forseti, tilhneigingu til þess að hafa skilning á frv. Ég legg hins vegar mikla áherslu á að menn fari gaumgæfilega yfir þessi atriði.

Ég hef verið að rekja og draga upp mynd sem ég gæti séð fyrir mér, aðrir hafa dregið myndina upp með öðrum hætti. Ég vænti þess að allshn. fái um það haldbærar upplýsingar, jafnvel í trúnaði, um dæmi þar sem sakargögn hafa spillst á upphafsmetrunum þegar lögreglan er að hefja rannsókn sína á alvarlegum glæpamálum þannig að nefndarmenn fái um það fulla og heila mynd hvernig þessum málum er háttað. Við 1. umr. máls er kannski ekki ástæða til þess að rekja þetta öllu nánar en ég vildi hins vegar láta það koma fram að ég hef skilning á tilurð frv., en áskil mér hins vegar rétt til þess að meta það og vega eftir því sem nefndin vinnur verk sitt. En í meginatriðum gef ég mér að hæstv. ráðherra fari ekki fram með frv. af þessum toga án þess að ríkar ástæður liggi að baki.