Einkamálalög og þjóðlendulög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 12:27:02 (6518)

2004-04-16 12:27:02# 130. lþ. 98.17 fundur 872. mál: #A einkamálalög og þjóðlendulög# (gjafsókn) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[12:27]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að allshn. skoði þetta nánar, m.a. það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi, að fá lista yfir þau mál sem hér er um að ræða. Ég dreg ekki í efa að formaður gjafsóknarnefndar mun koma á fund nefndarinnar, fara yfir þessi mál með nefndinni og skýra og ræða þannig að gott tækifæri gefist til þess fyrir þingmenn að átta sig á því hvernig þessi mál hafa þróast, hvaða breyting hefur orðið og hvers vegna menn telja nauðsynlegt að setja þetta strik í gjafsóknarheimildirnar sem hér er lagt til.

Út af þessu með sifjalögin vil ég endurtaka það sem ég sagði. Ég sagði í ræðu minni: ,,Að gefnu tilefni skal tekið fram að frumvarpinu er ekki ætlað að breyta neinu varðandi gjafsókn í sifjamálum, séu hin almennu skilyrði gjafsóknar uppfyllt og á greinargerðin ekki við þau mál sérstaklega.`` Þannig verður náttúrlega litið til almennra skilyrða þegar rætt er um sifjamálin. Það er ekki verið að hrófla við þeim með þessu.

Varðandi þjóðlendumálið þá þarf kannski ekki lengra mál en kemur fram í greinargerðinni, ef ég má vísa til hennar, með leyfi forseta. Þar segir:

,,Vegna framangreindra tillagna er í 3. gr. frumvarpsins lagt til að við lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta bætist ákvæði um gjafsókn. Liggja til þessa jafnræðisrök; þegar eru mál vegna ákvarðana óbyggðanefndar hafin á einu landsvæði og þykir því rétt að sömu reglur gildi um ákvarðanir nefndarinnar á öðrum svæðum.`` --- Þannig að ekki verði einhver landamerki dregin í þessu varðandi þetta út frá jafnræðissjónarmiði. Síðan segir:

,,Einnig má hafa í huga að í þessum málum hefur ríkisvaldið haft frumkvæði að ákveðinni lagasetningu og mörgum þeirra málaferla og krafna sem lýst hefur verið í kjölfar hennar.``

Hér á Alþingi var ákveðið að stofna til ákveðins ferlis og menn vissu, þegar þeir tóku þær ákvarðanir, að um það yrði ágreiningur. Því var sett inn í lögin að menn hefðu réttinn og dómstólarnir síðasta orðið o.s.frv. Eins og við vitum fer, í þjóðlendulögunum, ríkisvaldið fram og stofnar til átaka, ef þannig má að orði komast. Þau átök eru að lokum ekki leyst nema fyrir dómstólunum. Það eru þess vegna talin málefnaleg rök fyrir því að þeir menn sem fara í þessi átök við ríkisvaldið séu ekki settir í þá stöðu að hafa ekki fjárhagslega burði til að standa í málaferlunum. Þess vegna er þetta tekið út úr sérstaklega varðandi einstök mál.

Herra forseti. Ég held að ég hafi þessi orð mín ekki fleiri. Ég vil þakka málefnalegar umræður um þetta frv. og önnur frv. sem ég hef verið með í dag. Ég vona svo sannarlega að það sem á skortir verði upplýst í allshn. þingsins.