Veðurþjónusta

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 12:37:01 (6521)

2004-04-16 12:37:01# 130. lþ. 98.18 fundur 784. mál: #A veðurþjónusta# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[12:37]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér ræðum við frv. til laga um veðurþjónustu. Ég held að það heyri til tíðinda að frv. af þessu tagi sé lagt fram. Hér er um að ræða endurskoðun á löggjöfinni sem veðurþjónustan hefur farið eftir. Tilgangur þessa frv. er, eins og hæstv. ráðherra vék að, að skilgreina betur en gert er í gildandi lögum, hlutverk ríkisins í rekstri veðurþjónustu.

Ég verð að segja að hæstv. ráðherra hefði alveg mátt hafa fleiri orð um efni frv. Mér þykir um yfirgripsmikið frv. að ræða. Þótt mér hafi ekki gefist ráðrúm til að lesa greinargerðina frá orði til orðs þá er greinilega um talsverðar breytingar að ræða verði þetta frv. að lögum.

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að það er ekki óeðlilegt að dregnar séu skýrar línur á milli grunnþjónustu Veðurstofunnar og þeirrar þjónustu sem seld er, sem hægt er að segja að keppi á markaði. Ég lýsi því yfir stuðningi við það í prinsippinu. En við verðum að tryggja það að grunnþjónusta verði ekki skilgreind þröngt. Það verður að vera ljóst að grunnþjónustan sem Veðurstofu Íslands er ætlað að inna af hendi samkvæmt þessum lögum sé nægilega yfirgripsmikil til að við landsmenn, sem sannarlega búum við ákveðna sérstöðu hvað varðar veðurfar og veðurfarsrannsóknir, getum vel við unað.

Í 6. gr. frv. segir, herra forseti, að Veðurstofu Íslands sé ætlað að veita grunnþjónustu sem feli í sér að:

,,a. veita öryggisþjónustu vegna veðurs á landi, í lofti og á legi,

b. sjá um að gerðar séu almennar veðurspár eins og þær eru skilgreindar á hverjum tíma fyrir Ísland og umhverfi þess,

c. veita veðurþjónustu fyrir flugvelli og flugumferð í samræmi við lög, fyrirmæli stjórnvalda og samkvæmt alþjóðlegum reglum og samþykktum,

d. veita öryggisþjónustu vegna veðurtengdra þátta,

e. veita aðra þá grunnþjónustu sem ráðherra ákveður eða samið er um í alþjóðlegum samningum.``

Nú má ætla að þessi 6. gr. sé nokkuð skýr. En það verður að tryggja að skilgreiningarnar á þeim hugtökum sem hér eru notuð séu ljósar. Í athugasemdum um 6. gr. er ekki að finna nægilega yfirgripsmiklar skýringar að mínu mati. Ég held að umhvn. verði að leita umsagna og skoða þetta mál þannig að tryggt sé að við séum ekki að skerða grunnþjónustuna.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu mikilvæg veðurþjónusta er á landi okkar. Hún er mikilvæg fyrir okkur Íslendinga en hún er einnig mikilvæg á alþjóðlegan mælikvarða. Eins og fram kemur í þessu máli erum við bundin af alþjóðlegum samningum og alþjóðlegum reglum í þessu efni og verðum að lúta þeim.

Í ljósi reynslunnar, m.a. þess sem hefur verið að gerast varðandi Veðurstofu Íslands undanfarin ár, finnst mér satt að segja aldrei traustvekjandi þegar opinberar stofnanir þurfa að lúta niðurskurði og búa við erfiðan fjárhag árin áður en löggjöf um viðkomandi stofnun er breytt. Ekki verður annað sagt en að Veðurstofa Íslands hafi búið við bágan fjárhag undanfarin ár og hafi verið í fjársvelti. Við vitum að Veðurstofan hefur þurft að leggja niður ákveðna þætti þjónustu sinnar. Þar með hefur fækkað atvinnutækifærum á svæðum sem geta kannski ekki boðið upp á fjölbreytt atvinnutækifæri. Ég hef ekki verið sátt við það hvernig Veðurstofan hefur þurft að skera niður þjónustu sína og fækka störfum. En það hefur hún þurft að gera vegna þess að opinberir fjármunir hafa ekki verið nægir til þess rekstrar sem Veðurstofan hefur þó talið nauðsynlegan.

Mér hefur aldrei fundist það traustvekjandi sem hefur viljað bera við í tíð þessarar ríkisstjórnar, að opinberar stofnanir séu fjársveltar í aðdraganda þess að löggjöf um viðkomandi stofnanir sé breytt. Ég er ekki að lýsa því yfir að ég sé ósátt við það sem er í frumvarpinu. Þetta þarf að skoðast mjög vel í umhvn. og ég geri ráð fyrir að nefndin skoði málið af áhuga og fari ofan í einstaka þætti þess.