Veðurþjónusta

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 12:42:05 (6522)

2004-04-16 12:42:05# 130. lþ. 98.18 fundur 784. mál: #A veðurþjónusta# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[12:42]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hér er um hið merkilegasta mál að ræða. Veður hefur verið stór hluti af lífskjörum þessarar þjóðar í aldanna rás. Lengi vel þurftu menn að ganga út að skoða veðrið, bæði að morgni og kvöldi, og áttu í raun allt sitt undir því. Það var áður en veðurþjónustan fór almennt að verða aðgengileg í gegnum útvarp. Menn kunna auðvitað sögur af því þegar sagt var að íslenskir sjómenn eða bændur settust við tækin sín til að taka veðrið, eins og það var kallað, þ.e. þegar menn settu eyrað algjörlega upp í tækið og sátu við að innbyrða þær upplýsingar sem þeim voru miðlaðar frá Veðurstofunni um veður og veðurlag.

Það er annað mál. Auðvitað eru mjög breyttir tímar síðan það var sem ég var að lýsa. Nú til dags er fjölbreytilegur aðgangur opinn að veðurfarslegum upplýsingum sem ekki voru áður til staðar. Má í því sambandi minna á að þótt hér sé talað um, varðandi veðurtengda þætti í 10. tölulið 3. gr., um hafísútbreiðslu, sjólag og sjávarflóð, þá kemur Siglingastofnun Íslands að því að afla upplýsinga um sjólag með sjálfvirkum duflum sem komið hefur verið fyrir vítt og breitt í kringum landið. Hægt er að nálgast þær upplýsingar með því að hringja í viðkomandi dufl og fá upplýsingar um sjólag, ölduhæð og öldubil o.s.frv. Af þessu geta sjómenn við nútímasjósókn ráðið mikið í hvernig sjólag hefur verið að breytast, hvernig það hefur breytast undanfarnar klukkustundir o.s.frv. Var ölduhæð að hækka eða lækka eða hvort tíðni öldu var að breytast úr því að vera hafalda yfir í það að verða vindalda o.s.frv.

Þetta er allt þekkt. Nú fást meiri og betri upplýsingar en menn höfðu aðgang að fyrir örfáum árum. Þetta gerir það auðvitað að verkum að með slíkum aðgangi að upplýsingum tekst mönnum vonandi að stunda sjó með minni slysahættu og hækka öryggisstuðla meira en ella væri. Þannig veitir ekki Veðurstofan ein þessar upplýsingar. Upplýsingarnar veitir jafnframt, eins og ég nefndi, Siglingastofnun.

[12:45]

Varðandi útbreiðslu hafíss hefur Landhelgisgæslan auðvitað iðulega komið að því máli, bæði með tilkynningum frá skipum Landhelgisgæslunnar en einkanlega athugunum úr lofti. Farin eru sérstök ískönnunarflug og Veðurstofan vinnur síðan úr þeim upplýsingum og fylgist með þeim með samanburði frá ári til árs. Hún spáir í breytilega útbreiðslu hafíssins hér við land.

Við megum heldur ekki gleyma því að Hafrannsóknastofnun stundar rannsóknir á sjávarhita, sem er auðvitað nátengdur hafísútbreiðslu og ýmsum straumaskilyrðum sem valda breytilegri ísmyndun og mismunandi sjólagi. Allt er þetta samtengt og ég geri ráð fyrir að þær upplýsingar fari á milli stofnana.

Ég veit ekki hvernig gjaldtöku fyrir þær upplýsingar hefur verið háttað á undaförnum árum. Hefur t.d. Veðurstofan greitt fyrir upplýsingar frá Landhelgisgæslunni eða verið þátttakandi í kostnaði við að kanna útbreiðslu hafíss? Hefur Landhelgisgæslan borið þann kostnað ein? Í 10. og 11. gr. er fjallað um sérþjónustu og þjónustusamninga. Er þar einnig hugsað fyrir þessu í hina áttina, að Veðurstofan þurfi að fara að greiða fyrir upplýsingar, t.d. frá Landhelgisgæslunni eða Siglingastofnun? Eða er það aðeins fyrirhugað í hina áttina, að Veðurstofan geti selt upplýsingar? Þessu held ég að menn þurfi að velta fyrir sér og skoða og vanda sig við það.

Veðurupplýsingar eru geysilega mikilvægar fyrir þá sem stunda atvinnustarfsemi sem tengist veðurfari. Það eru ekki bara sjómenn og bændur. Undir það falla alls konar verktakafyrirtæki, Vegagerðin og yfirleitt öll atvinnustarfsemi sem tengist með einhverjum hætti samgöngum og þjónustu, t.d. flugfélög, ferjusiglingar o.s.frv. Þjónustan er af ýmsu tagi og ég vil spyrja hvort 10. og 11. gr., annars vegar um sérþjónustuna og hins vegar um þjónustusamninga, þýði verulegar breytingar frá því sem verið hefur. Ég sé ekki í frv. að beinlínis sé lagt upp með það enda erum við náttúrlega bundin af alls konar alþjóðasamningum um meðferð veðurfarslegra upplýsinga, bæði að því er varðar aðgang að upplýsingum frá öðrum stofnunum sem fylgjast með veðri vítt og breitt um veröldina og skyldur okkar til að láta sams konar þjónustu og upplýsingar af hendi.

Sjálfsagt er þess að vænta að á næstu missirum og árum komi inn í veðurþjónustuna sjálfstætt starfandi einstaklingar, stofnanir eða fyrirtæki, sem taki að sér að veita ákveðna veðurþjónustu. Það er þekkt að stofnanir úti í heimi hafa boðið aðgang að upplýsingum, t.d. um sjávarhita. Með því að gerast áskrifandi að ákveðnum upplýsingum og borga fyrir þær ákveðin gjöld geta einstaklingar sjálfvirkt fengið aðgang að sjávarhitakorti sem breytist frá degi til dags. Hið sama á auðvitað við um ísspár o.s.frv. Íslenskir sjómenn hafa aðgang að ýmsum upplýsingum frá stofnunum sem spá fyrir um veður, sérstaklega eftir að aðgangur í gegnum tölvutengingar varð auðveldari. Menn geta farið inn á spástofur erlendra stofnana, skoðað veðurkort fram og til baka og skoðað horfur fram í tímann á breytilegu veðri á viðkomandi hafsvæðum. Þessa þjónustu þarf ekki endilega að sækja til Veðurstofu Íslands. Þeir sem eiga mikið undir veðurfari, eins og íslenskir sjómenn, nota sér gjarnan veðurfarsupplýsingar frá miklu fleiri stofnunum en Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands er ein af þeim stofnunum sem menn nota en menn hafa einnig aðgang að veðurkortum sem unnin eru af öðrum þjóðum.

Þó breytist það ekki að menn treysta mikið á upplýsingar um veður frá Veðurstofunni og í raun langmest. Reynslan sýnir okkur að þar fæst besta þjónusta sem við getum fengið, sú þjónusta sem veitt er næst okkur. Hún á að öllu öðru jöfnu að geta varað við þegar breytingar verða á veðurfari þó að jafnvel með nútímatækni og nútímaupplýsingum komi veðrið enn þá einstöku sinnum á óvart. Það kemur mönnum af og til í opna skjöldu, því miður verð ég að segja. Iðulega hafa hlotist af því slys. Ég ætla ekki að telja þau dæmi sérstaklega upp en það mætti telja upp nokkur áhlaup sem hér hafa gengið yfir með svo stuttum fyrirvara að menn hafa hreinlega ekki áttað sig á í hvað stefndi og hafa orðið af því mannskaðar. Auðvitað er ekki við neinn að sakast í því. En með bættri tækni og veðurfarsupplýsingum, t.d. veðurfarsratsjám, gefast orðið miklu betri upplýsingar til að vara við slíkum breytingum í veðri.

Ég held að almennt sé málið sem við höfum hér í höndunum ágætt en vil spyrja að þessu varðandi sjólag og samstarf við Siglingamálastofnun. Hvernig er það, er það í báðar áttir og ætla menn að fara að taka gjöld sitt á hvað? Varðandi hafísútbreiðsluna og starfsemi Landhelgisgæslunnar vildi ég spyrja hvort fyrirhugað er að Veðurstofan greiði fyrir þær upplýsingar. Hvernig er því fyrir komið í dag?

Síðan óska ég sérstaklega eftir því að hæstv. ráðherra fari nokkrum orðum um sérþjónustu og starfsemi sem hér er fjallað um, eins og segir, með leyfi forseta, í frv.:

,,Starfsemi sérþjónustu Veðurstofu Íslands skal rekin sem sjálfstæð eining og vera fjárhagslega aðskilin frá annarri starfsemi stofnunarinnar.``

Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Hvaða gjaldtaka kemur þarna til með að eiga sér stað og við hverja verður verslað?

Almennt séð held ég að frv. sé ágætt en ég vil gjarnan vita meira um hvert menn stefna í þjónustusamningum og sérþjónustu.