Veðurþjónusta

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 12:59:31 (6528)

2004-04-16 12:59:31# 130. lþ. 98.18 fundur 784. mál: #A veðurþjónusta# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[12:59]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er leitt að hafa kaffið af hæstv. umhvrh. Það var ekki meiningin. Ég tel hins vegar fulla þörf á að ræða örlítið nánar um þessi mál Veðurstofunnar.

Í athugasemdum með frv. segir að á síðustu árum hafi tækniþróun og alþjóðavæðing haft mikil áhrif á starfsemi veðurstofa í heiminum. Það er rétt. Alþjóðavæðing og tækniþróun hafa haft veruleg áhrif sem m.a. leiða af sér þau atriði sem um ræðir í þessu frv. Bæði Samkeppnisstofnun og Ríkisendurskoðun hafa beint málinu inn á þá braut að hin viðteknu sjónarmið markaðsvæðingarinnar eru ríkjandi í frv. Ég tel að veruleg þörf sé á því að standa vörð um grunnþjónustuna og skilgreina hana betur en virðist gert í greinargerðinni. Ég tel að grunnþjónustan sé það mikilvæg og hana verði að greiða af almannafé og við megum ekki fara offari í þessum breytingum, sem gæti leitt af sér verri grunnþjónustu og takmarkað möguleika þeirra sem á henni þurfa að halda. Ég tel að í þessum efnum þurfi að standa vaktina og standa í báða fætur.

Mér þætti fengur að því að fá að heyra hæstv. umhvrh. ræða um eitt af þeim vandamálum sem vaxið hefur á síðustu árum. Það varðar rannsóknir á hlýnun lofthjúps jarðarinnar. Nú siglum við inn í skeið sem er verulega krítískt í þeim efnum. Mig langar að vita hvort Veðurstofan hefur, samkvæmt þessari löggjöf, einhverju hlutverki að gegna í þeim efnum. Þar er á ferðinni virkilega stórt verkefni sem heyrir undir hæstv. umhvrh. og umhvrn. Við höfum að mínu mati ekki komið því fyrir sem skyldi. Þær skýrslur sem hingað til hafa verið gerðar hafa komið út seint og verið fremur lauslega unnar að mínu mati. Ég tel að taka þurfi betur á í þeim efnum. Ég hefði talið eðlilegt að við ræddum það við þessa umræðu.