Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 13:11:46 (6532)

2004-04-16 13:11:46# 130. lþ. 98.19 fundur 876. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða# (skilagjald) frv. 82/2004, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[13:11]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta var samið í umhvrn. að beiðni Endurvinnslunnar hf. sem óskaði eftir að endurskoðað yrði ákvæði laganna um umsýsluþóknun vegna ólitaðra plastflaskna. Umsýsluþóknun er lögð á hverja umbúðaeiningu úr stáli, gleri og plastefni til að mæta kostnaði Endurvinnslunnar hf. af söfnun, endurvinnslu eða eyðingu slíkra umbúða og annarri tengdri umsýslu. Við ákvörðun umsýslugjalds er tekið mið af þeim gjöldum og tekjum sem leiðir af söfnun og endurvinnslu eða eyðingu hverrar umbúðategundar fyrir sig. Ástæðan fyrir þörf á hækkun umsýsluþóknunar á ólituðu plastefni er fjölgun ólitaðra plastflaskna, aukinn kostnaður við móttöku og flutninga sem leggst þungt á plastflöskur vegna rúmmáls þeirra samanborið við aðrar umbúðategundir og aukin hlutdeild þeirra í sameiginlegum kostnaði. Einnig hafa tekjur af sölu plastflaskna erlendis lækkað verulega undanfarin missiri, m.a. vegna mikillar samkeppni á heimsmarkaði.

Á síðasta ári skorti Endurvinnsluna hf. um 12 millj. kr. til að standa undir rekstrarkostnaði þess árs. Einnig ber Endurvinnslunni hf. að hafa um 6--7 millj. kr. í hagnað í samræmi við ákvæði laga um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum, þar sem kveðið er á um í 4. gr. að Endurvinnslunni hf. beri að skila hóflegum arði til eigenda sinna. Því er lagt til að fjárhæð umsýsluþóknunar af ólituðu plastefni verði hækkuð úr 0,36 kr. í 0,76 kr. Þessi hækkun umsýsluþóknunar mun skila um 12 millj. kr. hækkun í umsýsluþóknun á ári.

Til að tryggja áframhaldandi rekstrargrundvöll fyrir Endurvinnsluna hf. er lögð til framangreind hækkun á umsýsluþóknun á umbúðum úr ólituðu plastefni.

Virðulegur forseti. Ég hef farið yfir meginþætti frv. til laga um breytingu á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum, og legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.