Eiturefni og hættuleg efni

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 13:16:33 (6534)

2004-04-16 13:16:33# 130. lþ. 98.20 fundur 877. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (sæfiefni, EES-reglur) frv. 96/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[13:16]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna sérstaklega frv. til laga um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni, sem varða sæfiefni, sem hæstv. umhvrh. hefur gert grein fyrir. Sannleikurinn er sá að við þurfum að innleiða gífurlegt magn af löggjöf sem kemur til okkar í gegnum Evrópska efnahagssvæðið. Eins og fram kemur í greinargerð með frv. er um að ræða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins frá því í febrúar 1998. Af því sést að það er vonum seinna að þessi lög verði innleidd hér. Þetta færir okkur jafnframt heim sanninn um hve mikil vinna felst í að innleiða þá löggjöf sem við þurfum á þessu sviði.

Hér er um að ræða eitt af viðameiri verkefnum Umhverfisstofnunar, fara þarf í gegnum mjög flóknar reglugerðir og sinna þeirri vinnu sem þær leggja stofnuninni á herðar. Þau efni sem hér um ræðir eru að öllum líkindum búin að valda skaða í umhverfinu. Því er ekki seinna vænna að koma á slíkri löggjöf og sjá til að efni af þessu tagi lúti þeim reglum sem eðlilegar mega teljast miðað við aðstæður í dag.

Fólki kemur e.t.v. á óvart að heyra þetta orð ,,sæfiefni``. Okkur er það kannski ekki tamt á tungu. Það á við um efni sem eru t.d. í viðarvörn, sem algengt er að fólk noti og hafi til almennra nota heima hjá sér til að verja sólpallana og girðingar á hverju vori. Ég held að umhvrn. þurfi að efla fræðslu um þessi efni. Það verður að taka miklu betur á því að fræða almenning um þau efni sem eru til staðar, sérstaklega efni sem fólk notast við í húshaldi sínu, nánast daglega.

Ég held að ég ljúki máli mínu á því að brýna hæstv. umhvrh. til að auka fræðsluna í tengslum við nýja löggjöf um þessi efni. Sjá þarf til þess að upplýsingum til almennings verði komið á framfæri í aðgengilegu formi og á greiðan og öruggan hátt.