Eiturefni og hættuleg efni

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 13:19:05 (6535)

2004-04-16 13:19:05# 130. lþ. 98.20 fundur 877. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (sæfiefni, EES-reglur) frv. 96/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[13:19]

Mörður Árnason (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að minnast á þetta orð ,,sæfiefni`` sem ég sá fyrst fyrir nokkrum missirum og er hrifinn af. Fyrri hlutinn er myndaður af sama stofni og sögnin ,,að sofa`` og orðin ,,svefn`` og ,,að svæfa``.

Ég man eftir því þegar ég sá þetta afbrigði stofnsins eða þennan stofn af sömu rótinni. Það er í vísu Egils Skalla-Grímssonar þegar hann er búinn með einhverja orrustuna. Ég man ekki hverja en svo er veisla og þar situr þetta mikla kvendi og segir við Egil: ,,Hvað skaltu, sveinn, í sess minn?`` Egill svarar með vísu um afrek sín og þar á meðal segir hann:,, ... létum blóðga búka í borghliðum sæfask.`` Þetta kemur mér alltaf í hug þegar minnst er á þessi sæfiefni, sem sagt þegar Egill berst við menn í borghliðunum þannig að þetta eru ekki slæm hugrenningatengsl.