Erfðafjárskattur

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:07:00 (6540)

2004-04-16 14:07:00# 130. lþ. 99.1 fundur 924. mál: #A erfðafjárskattur# (lagaskil) frv. 15/2004, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það eru kannski ekki að öllu leyti efnislegar athugasemdir sem ég ætlaði að gera við málflutning hv. þm. Péturs H. Blöndals, heldur hitt að hér mælir hann fyrir máli og biður Alþingi Íslendinga um að lagfæra lög sem hann hafði frumkvæði að að setja fyrir örfáum dögum. Ég hefði talið skynsamara, í sporum hv. þm. Péturs H. Blöndals, að fara sér hægar og sýna meiri auðmýkt í ræðustól.

Formaður Samf., hv. 1. þm. Reykv. n., var eingöngu að vekja á því athygli að ýmis álitamál eru uppi og bar saman framgöngu stjórnarandstæðinga, sem báru ekki ábyrgð á framgangi málsins á sínum tíma þó þeir hafi stutt málið heils hugar, við framgöngu formanns nefndarinnar. Stjórnarandstæðingar komu til móts við þá þörf sem sannarlega var til staðar til að lagfæra þau mistök sem áttu sér stað undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hins vegar komu ábendingar í nefndinni um það sem hér var rakið af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að huga mætti að ýmsum öðrum þáttum þess.

Ég held að það hefði farið hv. þm. Pétri H. Blöndal betur að hafa meiri auðmýkt í farteskinu fremur en þann gassagang og hávaða sem hann hafði uppi.