Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:20:52 (6542)

2004-04-16 14:20:52# 130. lþ. 100.94 fundur 485#B fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), Flm. JBjarn (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Verkefni og tekjustofnar sveitarfélaganna eru ákveðin með lögum frá Alþingi og reglugerðum ráðuneytanna auk ýmissa óbeinna stjórnvaldsaðgerða sem oft er þrengt inn bakdyramegin á sveitarfélögin. Fjmrh. er ábyrgur fyrir tekjuskiptingunni og skattalögunum og því að sveitarfélögin fái nauðsynlega hlutdeild í skatttekjum hins opinbera.

Ég met það svo að vaxandi tortryggni gæti hjá sveitarfélögunum í garð ríkisvaldsins, sérstaklega hvað varðar fjármálaleg samskipti, tekju- og verkaskiptingu. Ályktun Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi frá 10. október sl. er ein af mörgum sem þingmönnum og ráðherrum berast þessa dagana en þar segir, með leyfi forseta:

,,Full ástæða er til að hafa áhyggjur af tekjuþróun sveitarfélaga undanfarin ár. Þau hafa á síðustu árum verið að takast á við sífellt umfangsmeiri og fjárfrekari lögbundin verkefni, svo sem einsetningu grunnskólans, yfirtöku félagsþjónustu og auknar kröfur í umhverfismálum. Þessi verkefni kalla á aukin útgjöld sveitarfélaganna sem mörg hver eiga erfitt um vik.

Aðalfundurinn bendir á neikvæð áhrif af skattkerfisbreytingum sem lúta að yfirfærslu einkareksturs í einkahlutafélög. Gríðarleg fjölgun einkahlutafélaga undanfarin ár hefur skert útsvarstekjur margra sveitarfélaga mjög mikið. Við slíkt geta sveitarfélögin ekki búið án þess að til komi aðrir tekjustofnar sem bæta það tekjutap sem orðið er.``

Sveitarfélögin benda auk þess á húsaleigubæturnar þar sem ríkið leggur ákveðna upphæð inn í það púkk en sveitarfélögin sitja ein uppi með skyldurnar og aukningu sem hefur reynst mun meiri en ráð var fyrir gert. Eyðing refa og minka er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga þar sem ríkið leggur til ákveðna upphæð en lagaskyldan og framkvæmdin er sveitarfélaganna. Ný reglugerð um búfjáreftirlit leggur stórauknar kvaðir og útgjöld á sveitarfélögin, einkum á landsbyggðinni.

Einn sveitarstjóri greindi mér frá því að Brunamálastofnun hefði áður fyrr komið reglulega og tekið út slökkvibúnaðinn endurgjaldslaust. Nú væri því hætt en sveitarfélaginu skylt að gera þjónustusamning við fjarlægan aðila um eftirlitið með tilheyrandi kostnaði. Síðast en ekki síst yfirtökum við regluverk Evrópusambandsins á færibandi og stóraukum útgjöld sveitarfélaganna gagnrýnislaust eða gagnrýnislítið.

Nú stendur yfir átak af hálfu ríkisins um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Ríða fartmiklar nefndir um héruð og predika stækkun sveitarfélaga og yfirfærslu á nýjum verkefnum til þeirra. Ein þeirra er svokölluð tekjustofnanefnd. Hlutverk þeirrar nefndar virðist vera á reiki því að í erindisbréfi nefndarinnar sem er frá 16. desember sl. er einungis talað um að hún geri tillögur um aðlögun tekjustofna sveitarfélaga að nýrri sveitarfélagsskipan og breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þegar og ef af henni verður. Með sama hætti hefur verkefnastjórn átaksins breytt kynningu sinni á hlutverki nefndarinnar frá fundi til fundar.

Samband sveitarfélaga hefur skrifað formanni átaksins bréfs og krafist þess að staðið verði við yfirlýsingu frá 19. ágúst um að verkefni tekjustofnanefndarinnar sé einnig, eins og þar stendur, með leyfi forseta, ,,athugun á núverandi tekjustofnum sveitarfélaga og könnun á því hvort þeir séu í samræmi við lögskyld og venjubundin verkefni sveitarfélaganna``. Þar vilja sveitarfélögin byrja og réttast er að byrja þar áður en lengra er haldið. Ljóst er því að í þeirri gandreið sem nú er hafin í svokallaðri eflingu sveitarstjórnarstigsins er engin sátt um rásmarkið né heldur stefnuna í hlaupabrautinni.

Hæstv. fjmrh. ber ábyrgð á tekjuhlið sveitarfélaganna, skattalögum og því sem að þeim snýr þar. Þess vegna þykir mér afar mikilvægt að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra á því hvort hæstv. ráðherrar telji að tekjustofnar sveitarfélaganna séu fullnægjandi miðað við núverandi verkefni þeirra og að nú ríki eðlilegt samræmi í tekjum og gjöldum sveitarfélaganna annars vegar og ríkisins hins vegar.

Telur ráðherra tímabært að hefja undirbúning að frekari færslu verkefna til sveitarfélaganna áður en fjárhagur þeirra hefur verið styrktur?

Hyggst ráðherra beita sér nú þegar fyrir skattbreytingum eða öðrum þeim aðgerðum sem rétta tekjur og tekjuhlut sveitarfélaganna?

Telur hæstv. ráðherra eðlilegt að sveitarfélögin ein beri ábyrgð á auknum kostnaði vegna sameiginlegra verkefna með ríkinu þegar kostnaðurinn reynist hærri eða hækkar á milli ára af ástæðum sem sveitarfélögin ráða litlu eða engu um?

Í síðasta lagi vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því hvort fjmrn. sé reiðubúið til að taka að sér að kostnaðarmeta áhrif af lögum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsákvörðunum gagnvart sveitarfélögum í landinu hliðstætt því sem það gerir nú fyrir ríkissjóð við framlagningu nýrra stjórnarfrumvarpa. Ég tel það, virðulegi forseti, algera forsendu í vinnu hins opinbera, í vinnu Alþingis, í vinnu ráðuneytanna að stjórnvaldsaðgerðir sem samþykktar eru af sveitarfélögunum séu kostnaðarmetnar áður en framkvæmd þeirra verði virk.