Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:40:40 (6548)

2004-04-16 14:40:40# 130. lþ. 100.94 fundur 485#B fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:40]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Eðli málsins samkvæmt er stöðugt samráð á milli ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsleg samskipti. Þau samskipti hafa gengið alveg ágætlega og eru í góðum farvegi. Ég mótmæli því að út úr þeim nefndum og ráðum sem hafa verið starfandi á undanförnum árum hafi ekkert komið. Ég nefni tekjustofnanefnd og jöfnunarsjóðsnefnd þaðan sem einmitt komu tillögur um aukna tekjustofna til handa sveitarfélögunum.

Hæstv. forseti. Sú stefna hefur verið mörkuð á undanförnum árum að aðskilja eins og hægt er tekjuöflun hvors stjórnsýslustigs fyrir sig og í öllu falli að skýra línurnar sem best þar sem um sameiginlega tekjuöflun er að ræða. Þar nefni ég sérstaklega Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Nú er, eins og hér hefur komið fram, starfandi nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins með aðild Sambands íslenskra sveitarfélaga en starf hennar miðar m.a. að því að flytja fleiri verkefni til sveitarfélaganna. Hugsunin er þá sú að efla og treysta sveitarstjórnarstigið. Við hljótum að álykta sem svo að nærþjónustuverkefni við íbúana séu best komin hjá því stjórnsýslustigi sem stendur þeim næst. Við getum nefnt málefni fatlaðra og öldrunarþjónustu sem fellur einnig mjög vel að félagsþjónustu sveitarfélaga.

Samhliða þessari nefnd starfar tekjustofnanefnd og sameiningarnefnd. Ýmis álitamál hafa komið upp og verið í umræðunni að undanförnu sem tekjustofnanefndin mun leitast við að ná niðurstöðu í. Aðalatriðið varðandi þessi fjárhagslegu samskipti ríkis og sveitarfélaga nú er að þau eru í góðum farvegi og að um stöðugt samráð er að ræða sem á sér stað í gegnum starfs- og stefnumótunarnefndir og einnig beint samráð forsvarsmanna Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar.