Lyfjalög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 15:08:05 (6560)

2004-04-16 15:08:05# 130. lþ. 100.2 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Frú forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að ná niður lyfjakostnaði hér á landi og það ætti að vera forgangsmál okkar allra, sérstaklega okkar þingmannanna. Lyfjakostnaður landsmanna er núna um 14 milljarðar kr. á hverju ári en þar af eru um 9,5 milljarðar kr. hlutur ríkisins og því er hlutur einstaklinga um 4,5 milljarðar kr. Lyfjakostnaður á hverjum virkum degi á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi er um 6,5 millj. kr. Eins og tölurnar sýna eru gríðarlegir hagsmunir í húfi og um gríðarlegar tölur að ræða.

Það sem er hins vegar einnig alvarlegt í þessum tölum er m.a. að vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar hefur þessum aukna kostnaði verið velt á landsmenn. Samkvæmt Síriti Samtaka verslunarinnar hefur hlutfallið sem sjúklingur greiðir fyrir umfram gólf og upp að þaki hækkað frá 1996--2002 úr 16% í 65% fyrir almenna neytendur og úr 8% í 50% fyrir lífeyrisþega sem borga fyrir lyf sem notuð eru við langvinnum sjúkdómum. Við sjáum að þetta er gríðarleg hækkun sem skýrist eingöngu af ákvörðun stjórnvalda, en þetta er svo sem í samræmi við aukna kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu sem er annað áhyggjuefni.

Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar er lyfjakostnaður á hvern landsmann um 46% hærri en það sem gerist t.d. í Noregi og Danmörku. Ef lyfjakostnaður væri svipaður í Danmörku og Noregi væri hann um það bil 4,4 milljörðum kr. lægri, en til samanburðar mætti reka Háskóla Íslands fyrir þá upphæð. Hið opinbera verður því að finna einhverjar leiðir til að ná lyfjakostnaði niður, en þó ekki einungis vegna þess að lyfjakostnaður er hærri hér á landi en í samanburðarlöndum okkar á hvern landsmann heldur einnig vegna þess að lyf er ekki eins og hver önnur vara í augum fólks. Lyf er iðulega nauðsynjavara sem viðkomandi einstaklingur þarf einfaldlega á að halda.

Aukin lyfjanotkun á að sjálfsögðu sinn þátt í auknum lyfjakostnaði. Nú eru Íslendingar komnir upp fyrir Dani sem verður að teljast óvenjulegt í ljósi þess að íslenska þjóðin er tiltölulega ung og talsvert yngri en danska þjóðin. Aukin notkun á geð- og þunglyndislyfjum á sinn þátt í þróuninni en það er spurning hvort ákveðnar kerfisbundnar ástæður eigi ekki sinn þátt í því. Ég vil endilega koma þeirri hvatningu á framfæri við hæstv. heilbrrh. að hann tryggi fjármagn til Tryggingastofnunar til að semja t.d. við sálfræðinga. Ég held að það væri stórt skref til að minnka lyfjakostnað. Hugsanlega eru læknar, sem fólk leitar t.d. til í þunglyndi, gjarnari að ávísa lyfjum á fólk en t.d. sálfræðingar sem taka fólk í langtímameðferð og kryfja kannski oft að rót vandans. Það má líka skoða aðrar leiðir eins og t.d. að auka iðjuþjálfun á öldrunarstofnunum. Svo eru lærðar kenningar um að aukin hreyfing minnki þunglyndi. Í Danmörku þekkist það sums staðar að aukin hreyfing er bókstaflega sett á lyfseðla. Það virkar jákvætt á fólk.

Hins vegar eru að sjálfsögðu ýmsar leiðir til að lækka lyfjakostnað og má þar nefna t.d. lyfjalista sem mega alls ekki vera of víðtækir, klínískar leiðbeiningar sem menn fara eftir. Við þurfum að koma í veg fyrir lobbýisma lyfjaframleiðenda og lyfsala á lækna. Við þurfum að auka kostnaðarvitund læknanna, t.d. með markvissri kennslu í læknisnáminu hérlendis. Við þurfum hugsanlega að skoða leiðir til að liðka fyrir undanþágum á merkingum á lyfjum sem fara einungis inn á stofnanir og eru meðhöndluð af sérfræðingum og af fagfólki. Hugsanlega mætti lækka virðisaukaskatt á lyfjum en til samanburðar er enginn virðisaukaskattur í Svíþjóð á lyfseðilsskyldum lyfjum og sömuleiðis í Bretlandi. En samkvæmt svari hæstv. fjmrh. við fyrirspurn frá hv. þm. Samf., Jóni Kr. Óskarssyni, eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti af lyfjum um 780 millj. kr. fyrir árið 2002 en við lækkun vasksins í 14% úr 24,5% mundu áætlaðar tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskattinum af lyfjum lækka um 330 millj. kr. Færi þrepið hins vegar alla leið niður í 7% mundu áætlaðar tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti af lyfjum lækka um 560 millj. kr. Í ljósi þess að þetta eru ekki afskaplega háar tölur ef við skoðum ríkissjóð held ég að hæstv. heilbrrh. ætti að skoða þessa leið sem hefur eins og ég segi verið farin í öðrum löndum.

Síðan eru mýmargar aðrar leiðir sem má t.d. finna í skýrslu Ríkisendurskoðunar en hins vegar þarf að gæta að því að þær leiðir sem við förum til að lækka lyfjakostnað auki ekki álögur á þá sem minna mega sín, svo sem öryrkja og lífeyrisþega. Slík brýning á bæði við stjórnvöld, þ.e. hæstv. heilbrrh. og athafnir lyfjaverðsnefndar. Við þurfum því að vera mjög vakandi yfir þeim ákvörðunum sem sú nefnd mun taka, ég tala ekki um að ef frv. verður að veruleika mun lyfjagreiðslunefnd hafa gríðarleg völd, en samkvæmt frv. munu ákvarðanir lyfjagreiðslunefndar ekki vera kæranlegar.

Frumvarp hæstv. heilbrrh. lýtur í raun og veru ekki að neinum marktækum leiðum til að lækka lyfjakostnaðinn. Hins vegar er minnst á tvö atriði í frv. sem mig langar aðeins að koma inn á. Það eru samheitalyfin og svo samhliða innflutt lyf en það er almennt talað um að leiðir stjórnvalda til að lækka lyfjakostnaðinn geti m.a. falist í því að auka hlutdeild samheitalyfja en samheitalyf eru lyf sem hafa sama virka innihaldsefnið og upprunalyfið hefur. Hins vegar hafa menn litið á það sem leið stjórnvalda til að lækka lyfjakostnað, þ.e. að auka hlutdeild samhliða innfluttra lyfja sem eru í stuttu máli sagt nákvæmlega sömu lyfin og eru framleidd af sama frumlyfjaframleiðanda en eru flutt inn af öðrum en umboðsaðila. Í rauninni er hugmyndafræðin bak við samhliða innfluttu lyfin hluti af hugmyndafræði hins innri markaðar ESB sem við erum hluti af, sem betur fer, um hina frjálsu för vöru, þ.e. lyf sem er markaðssett í einu landi ESB og EES er selt í öðru landi. Hins vegar hefur hingað til verið frekar lítill samhliða innflutningur á lyfjum hér á landi og þess vegna þurfum við að skoða afskaplega vel þær leiðir sem við ættum að fara til að auka hann.

Lyfjaverðsnefnd telur sig núna vera að byrja að gera samheitalyfjamarkaðinn meira heillandi með aukinni álagningu á ný samheitalyf. Ég held að við verðum að sjá til hvernig til tekst en það er ágætt að hafa það í huga að Íslendingar hafa kunnað að nýta sér samheitalyfjamarkaðinn erlendis með mjög góðum árangri, t.d. Delta og nú Pharmaco sem er verðmætasta fyrirtæki landsins. Ég sé ekki af hverju við ættum ekki að geta virkjað samheitalyfjamarkaðinn mun meira hér á landi en raun ber vitni. Varðandi samhliða innfluttu lyfin verð ég að taka undir áhyggjur hv. þm. Jóns Gunnarssonar og ég verð að lýsa við 1. umr. örlitlum áhyggjum yfir hvernig frv. hæstv. heilbrrh. tekur á málefnum samhliða innfluttra lyfja, en í frv. er þó tekið fram að það er vonast til að samhliða innflutningur á lyfjum geti lækkað lyfjaverð og þar með lyfjakostnað. Hins vegar stendur í 3. mgr. 10. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Þegar um samhliða innflutt lyf er að ræða skal lyfjagreiðslunefnd hafa hliðsjón af verði þess í útflutningslandinu við verðákvörðun sína.``

[15:15]

Þetta ákvæði gæti hugsanlega dregið talsvert ef ekki að öllu leyti úr þeim ávinningi sem yrði ella af samhliða innflutningi, þ.e. ef við lítum á verð í útflutningslandinu. Hvatinn af þeirri starfsemi, af samhliða innfluttum lyfjum, er nú þegar bæði erfiður og gríðarlega áhættusamur en það er mikil óvissa um verð á samhliða innfluttum lyfjum og getur því innkaupsverðið frá útflutningslandinu verið margbreytilegt og óhagstætt fyrir íslenska innflytjendur eigi það að vera viðmiðunarverðið.

Í Svíþjóð hafa menn tæklað samhliða innfluttu lyfin með öðrum hætti en þar er tekið á verðmyndun þessara lyfja og þá gert ráð fyrir að verðmyndun byggist á því að tekið sé mið af verði sambærilegs lyfs í Svíþjóð þegar ákvörðun er tekin um verð samhliða innfluttra lyfja. Í Danmörku geta samhliða innflytjendur ákveðið útsöluverð á lyfjum sínum sjálfir. Þetta eru leiðir sem við þyrftum að hafa í huga því ég held að markmið okkar hljóti að vera að við þurfum að auka samhliða innflutt lyf og stækka þann markað. Í skýrslu ríkisendurskoðanda er bent á að takmörkuð samkeppni á heildsölumarkaði sé eitt af því sem heldur lyfjakostnaði hér á landi uppi og ég held að flestir geti verið sammála því. Ég held því að við þurfum að hafa þennan markað opinn og aðlaðandi og leyfa eiginleikum samkeppni að njóta sín, en markaður samhliða innfluttra lyfja er t.d. talsvert stærri í Danmörku en hérlendis. Því er hugsanlega betra að hafa svipaðar reglur og eru í Danmörku þar sem samhliða innflytjendur hafa af sjálfsdáðum skráð lyf á lægra verði en það sem hin opinberu verð frumlyfjaframleiðendanna eru skráð á. Þess vegna er viss hætta á því að frv. hæstv. heilbrrh. muni geta leitt til hækkunar á lyfjakostnaði en markmið okkar allra á þingi hlýtur að vera lækkun lyfjakostnaðar. En sé hins vegar ástæða heilbrrn. og hæstv. heilbrrh. með þessu ákvæði í 3. mgr. 10. gr. frv. að koma í veg fyrir að Tryggingastofnun greiði hærra verð en það sem neytendur fá þá er það sérstakt vandamál sem ber að taka á, t.d. með því að auka samningskraft eða eftirlitsúrræði Tryggingastofnunar. Ég tel það tæpast vera rétt að taka ávinning íslenskra neytenda af samhliða innfluttum lyfjum vegna hugsanlega veikrar stöðu Tryggingastofnunar gagnvart lyfsölum.

Herra forseti. Það er annað sem mig langar aðeins að benda á í frv. en það eru ákvæði 4. mgr. 10. gr. frv. en þar segir m.a, með leyfi forseta:

,,Lyfjagreiðslunefnd ákvarðar flokkun samheitalyfja og lyfja með sambærileg meðferðaráhrif til viðmiðunar greiðsluþátttökuverðs almannatrygginga.``

Það þarf að vera ljóst hvað meint er með orðunum sambærileg meðferðaráhrif. Lyf sem talin eru hafa sambærileg meðferðaráhrif þurfa ekki að öllu leyti að vera jafngild læknisfræðilega en samt á að skipa þeim saman í flokk og lægsta verð innan þess flokks á svo að ráða greiðsluþátttöku almannatrygginga. Þá vakna spurningar hvort sjúklingar sem hafa lítið fjárhagslegt bolmagn muni lenda í því að þurfa að skipta út lyfi sínu en efnameiri sjúklingar geti látið eftir sér að nota þau lyf sem best henta. En samhliða því þarf einnig að hafa í huga þær meðferðir þar sem læknar þurfa að prófa nokkur mismunandi lyf á sjúklingum áður en fullnægjandi árangur sést af meðferðinni, en það á t.d. við um meðferð gigtarsjúkdóma.

Frú forseti. Þessir punktar mínir og áhyggjur af samhliða innfluttu lyfjunum og hin sambærilegu meðferðarúrræði verða annars betur skoðuð í meðförum heilbrn. og í kjölfar þeirra umsagna sem við í nefndinni munum væntanlega fá frá hagsmunaaðilum.