Lyfjalög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:00:34 (6569)

2004-04-16 16:00:34# 130. lþ. 100.2 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og vona svo sannarlega að það sé rétt mat hjá honum að lyfjakortin dekki þann kostnað sem sjúklingar verða fyrir ef þeir þurfa nauðsynlega á dýrari lyfjunum að halda sjúkdómsins vegna og að kostnaðurinn færist ekki neitt í líkingu við það sem birtist í frétt Fréttablaðsins yfir á sjúklinga, hvorki lífeyrisþega né almenning og fagna því að það sé mat ráðherrans að það sé ekki raunveruleikinn.

Miðað við það sem hefur komið fram í umræðunni og efni frv. held ég að frv. standi til bóta og það séu í því leiðir sem er eðlilegt að reyna að fara til að lækka lyfjakostnað. Ég fagna líka þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að skipuð verði nefnd til þess að fara yfir lyfjaverðið í heild sinni og endurskoða það. Það er sjálfsagt ekki vanþörf á því. Það hefur verið margsýnt fram á að lyfjakostnaður hérlendis er miklu hærri en í nágrannalöndunum og fullt tilefni til þess að endurskoða málin í heild sinni og ég treysti því að þær upplýsingar sem ráðherra hefur verið að gefa um málið, m.a. í þessu andsvari, séu réttar.