Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:05:27 (6571)

2004-04-16 16:05:27# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, JGunn
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Við erum að ræða frv. til laga um breytingu á lögum nr. 57 frá 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum. Ég sé ekki í fljótu bragði við lestur frv. sem hér liggur fyrir að þetta séu stórar og miklar breytingar, en þó er um áherslubreytingar að ræða sem menn hafa ekki viljað fara út í hingað til og breyta talsvert þeim reglum sem gilda um löndun á afla sem að hluta til er tekinn í efnahagslögsögu Íslands. Hingað til hafa menn þurft að landa honum hér heima þar sem hann hefur farið í gegnum sama kerfi og afli sem tekinn er að fullu innan efnahagslögsögu eða þá að þeir hafa fengið að fara með hann út og landa honum þar eftir þeim reglum sem gilda í dag um að fiskur sé seldur á uppboðsmörkuðum erlendis, eða þá að þetta sé bræðslufiskur sem fari í fiskimjölsverksmiðju.

Ég velti fyrir mér 1. gr. frv. þar sem segir ,,enda sé eftirlit með löndun afla og vigtun hans talið fullnægjandi.`` Hver mun meta hvað sé fullnægjandi eftirlit með löndun og vigtun? Hver mun hafa það eftirlit með höndum? Munu embættismenn Fiskistofu þurfa að setja upp útibú í löndum Evrópu? Mun verða samið við svipaðar stofur og skoðunarstofur hér heima til að hafa eftirlit fyrir sjútvrn. eða fyrir Fiskistofu, eða hver mun taka að sér eftirlitið?

Við vitum að það er ansi strangt eftirlit á löndun og vigtun á fiski hér heima og gildir einu í hvaða veiðarfæri hann er tekinn, hvar hann er tekinn eða hverrar tegundar hann er. Við höfum komið mjög öflugu og miklu eftirlitskerfi á laggirnar sem kostar bæði mikla fjármuni og hefur mjög virkt eftirlit með flotanum þegar hann kemur að landi. Sumum hefur meira að segja ofboðið það eftirlit sem er í gangi og talið að það gangi allt of langt og verið sé að elta menn fyrir löndun á örfáum fiskum og á allan hátt reynt að gera þeim sem erfiðast fyrir. Einnig kosti það eftirlit útgerðir og sjávarútvegsfyrirtæki mikið sem starfi hér. Því hlýtur maður að velta fyrir sér hvort við séum að gera minni kröfur um eftirlit á fiski sem að hluta til veiðist innan efnahagslögsögunnar en við gerum hér heima og verður fróðlegt að fá svör hjá hæstv. ráðherra um það.

Hins vegar er hér ákvæði um að breyta reglum sem gilt hafa um svokallaðan undirmálsfisk. Ef menn hafa haldið honum sér í veiðiferðinni og gefið hann upp sem undirmálsfisk strax við löndun hafa þeir fengið að landa honum utan kvóta og hann hefur verið vigtaður. Það hafa verið, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, lengdarmælingar á fiski en nú er verið að leggja til að þyngd geti einnig skipt máli. Ég er fullkomlega sammála því að eðlilegt sé að það sé ekki bara lengd á fiski heldur einnig þyngd sem skipi honum í hóp undirmálsfisks eða ekki.

Ef þær breytingar verða sem lagt er til í frv. að menn geti síðar farið að flokka frá fisk og kallað hann undirmálsfisk, veltir maður fyrir sér: Þarf það að gerast strax við fyrstu úrtaksvigtun, strax við fyrstu flokkun á fisknum, eða geta menn hvenær sem er kallað til einhverja embættismenn og bent á fisk og sagt: Þessi fiskur er undirmálsfiskur og það þarf að vigta hann frá sem slíkan? Í raun er spurningin hve langur tími mun líða frá því að veiði hefur verið hætt og löndun átt sér stað þar til fiskur er sagður undirmál. Geta menn verið að kalla til embættismenn mörgum dögum eftir að búið er að landa fiski til þess að skilgreina einhvern hluta af aflanum í undirmál vegna þess að það hafi ekki átt sér stað nein flokkun á fiskinum fyrr en þá, komið hafi verið að vinnslu og þá hafi komið í ljós að einhverjir fiskar væru annaðhvort of léttir eða of stuttir og þar af leiðandi væri hægt, samkvæmt heimild, að kalla það undirmálsfisk og vigta frá?

Hér er talað um að þetta gæti átt við um tegundir sem ekki eru blóðgaðar eða ekki gert að um borð í veiðiskipi, væntanlega er um karfa eða einhvern slíkan fisk að ræða. Ég er í sjálfu sér ekki á móti því að lítt skoðuðu máli að við rýmkum heimildir fyrir útgerðir til þess að fiskur sem sannarlega er undir einhverjum ákveðnum mörkum sé vigtaður sem undirmálsfiskur og ekki dreginn frá kvóta. Ég held að það sé af hinu góða að við reynum að rýmka þær reglur eins og við getum innan skynsamlegra marka, en velti þó fyrir mér þeim atriðum sem ég nefndi um framkvæmdina á þessu, hvernig þetta verður framkvæmt.

Að öðru leyti munum við að sjálfsögðu skoða frv. til laga í hv. sjútvn. Ég veit ekki hvort hæstv. sjútvrh., eins og aðrir ráðherrar, er með það í maganum að klára málið áður en þingi verður frestað, en það bætist þá í hóp þeirra mörgu mála sem þannig er ástatt um og sífellt lengist röðin.

Við stöndum hér á föstudegi, og ekkert að því, og höldum þingfund vegna þess hve mikið er fram komið af málum. Eins og ég sagði í fyrra máli mínu, frú forseti, er svolítið skondið fyrir nýliða og furðulegt að sjá hvernig hér hrúgast allt inn á síðustu dögum og ekki örgrannt um að maður velti fyrir sér hvort það geti verið með vilja að hrúga málum inn á síðustu dögum til þess að þau verði pressuð í gegn án þess að skoða þau neitt sérstaklega, ekki það að ég ætli hæstv. ráðherrum að vera að lauma neinu fram hjá þinginu, heldur að losna kannski við það þref og þras sem þeim finnst fylgja því að koma frumvörpum til laga í gegnum hið háa Alþingi, því við sem hér sitjum höfum skoðanir á frumvörpunum og viljum koma þeim á framfæri.