Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:24:02 (6573)

2004-04-16 16:24:02# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta litla frumvarp sem mér sýnist á margan hátt vera ágætt og þarft. Í raun er furðulegt að það skuli ekki hafa komið fram fyrir löngu síðan. Ég tel að útgerðum sem veiða úr flökkustofnunum svokölluðu ætti að vera frjálst að landa þeim afla á þeim stöðum sem hagstæðastir þykja hverju sinni. Það ætti bara að vera eðlilegt og sjálfsagt mál.

En mig langar svolítið til að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvað liggi að baki þessu frumvarpi einmitt núna. Hafa komið fram óskir frá útgerðarmönnum um að liðkað yrði á þessum reglum varðandi löndun? Er þetta hugsanlega í tengslum við það að menn eru að hugsa sér til hreyfings, ætli að fara að stunda til dæmis veiðar á kolmunna snemma á hverju ári djúpt suður af landinu, vestur af Írlandi og Skotlandi? Mér sýnist að þetta mundi fyrst og fremst gagnast veiðum á kolmunna og þá hugsanlega líka úthafskarfa. Loðnan fer að sjálfsögðu að mestu leyti á land hér á Íslandi og kannski eitthvað í Færeyjum og norsk-íslenska síldin sömuleiðis.

Fyrst maður er farinn að tala um síld þá væri líka í leiðinni rétt að spyrja hæstv. ráðherra hvort nokkuð sé að frétta af samningaviðræðum við Norðmenn um blessaða síldina því eins og við vitum fer síldarvertíð bráðum að bresta á og þar gæti virkilega skorist í odda ef ekki verður búið að ganga frá samningi fyrir þann tíma.

Við þessum spurningum vildi ég, frú forseti, fá svar.

Annað sem mér datt líka í hug að spyrja um er að í Evrópusambandinu og svo í Noregi og á Íslandi gilda mismunandi reglur um svokallaða vatnsprósentu í uppsjávarafla. Yrði hér með þessu farið eftir íslensku reglunum þegar reiknað er með vatnsprósentu í afla og síðan þá dreginn frá kvóti á skipunum eða yrði reiknað með reglum Evrópusambandsins, þ.e. ef skip mundi landa í höfnum Evrópusambandsins? Það væri ágætt að fá skýringu á því.

Mig langar líka til að fá skýringu á því hvers vegna menn eru nú farnir að tala bæði um þyngd og stærð hvað varðar undirmálsfisk og hvernig þetta verði skilgreint nánar. Hvers vegna er verið að draga inn þessa nýju breytu, þ.e. þyngd? Hver er tilgangurinn með því?

Annað var það nú ekki í þessari umferð, frú forseti. Eins og hv. þm. Jón Gunnarsson benti hér á áðan fer frumvarpið væntanlega núna inn í sjávarútvegsnefnd. Þar eru miklir snillingar sem eflaust munu fara létt með að meta frumvarpið og koma með breytingar á því ef þörf þykir.