Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:42:41 (6577)

2004-04-16 16:42:41# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:42]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst það alvarlegt ef það er að koma á daginn að menn hafi verið að landa síld í stórum stíl erlendis án þess að lagaheimildir væru fyrir því. Mér finnst það frekar alvarlegt mál stjórnsýslulega séð. Ég held að þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra veitti heyri til tíðinda hvað þetta varðar. Ég geri að tillögu minni að í hv. sjútvn., þar sem ég á sæti, verði einmitt kallað eftir upplýsingum um hversu mikilli síld og öðrum uppsjávarfiski hafi verið landað til manneldis í erlendum höfnum á undanförnum árum.

Mér finnst með ólíkindum að þetta frv. skuli ekki hafa komið fram fyrir löngu, fyrir einhverjum árum þegar flotinn fór að breytast, menn fóru að stunda þessar veiðar á fjarlægum miðum og óskuðu eftir því að fá að landa aflanum í erlendum höfnum.

Ég tek það fram, frú forseti, að ég hef ekkert á móti því að útgerðarmenn landi afla sínum í erlendum höfnum ef þeim finnst það hagstætt. En mér finnst mjög mikilvægt að farið sé eftir lögum og reglum og allir séu jafnir fyrir lögum og reglum í þessu landi þegar fiskveiðistjórn er annars vegar. Því miður höfum við séð allt of mörg dæmi um það undanfarið að menn virðast ekki jafnir fyrir lögum landsins þegar fiskveiðistjórn er annars vegar. Það er líka alvarlegt vandamál. Það vandamál verður tekið til umræðu síðar.

Ég minni á eitt varðandi þorskinn. Þótt fiskifræðingar hafi talið 25% fleiri þorska í togararallinu núna en í fyrra þá er ekki víst að það gagnist mikið ef þorskurinn er 25% léttari en hann ætti að vera vegna hungurs.