Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:44:33 (6578)

2004-04-16 16:44:33# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:44]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt munað hjá mér að 30 þús. tonna reglan, þ.e. sveiflujöfnunarreglan, sé enn þá í gildi, þ.e. ef eigi að bæta við þá bætist 30 þús. tonn við en ef það eigi að minnka þá minnki um 30 þús. tonn. Er almennt búið að afnema það? Ég man ekki alveg hvort svo er.

Ég tel að það sé hægt að flokka afla frá um borð í þeim skipum sem stunda flottrollsveiðar. Það ætti að vera hægt með tiltölulega einföldum útbúnaði á dekki við skiljurnar að flokka allan stærri fisk frá án þess að valda töfum við dælingu á fiski úr flotvörpunni.

Hæstv. forseti. Varðandi það sem ég nefndi, að það færi að nálgast það að hæstv. sjútvrh. standi fyrir lögbroti, þá vil ég skýra það örlítið nánar.

Í stjórnarskránni segir að við skulum jöfn fyrir lögum og ekki megi leggja höft á atvinnufrelsi manna nema það þjóni almannahagsmunum. Þetta hefur verið túlkað þannig að höft væru lögð á alla í einni atvinnugrein eða frelsið takmarkað, m.a. í sambandi við fiskveiðistjórnina.

Nú hagar svo til að búið er að bæta við aflamarkið. Á síðasta ári er búið að þrefalda ýsukvótann, tvöfalda ufsakvótann, bæta 30 þús. tonnum við þorskinn og þar á jafnvel að bæta aftur við 30 þús. tonnum. Á sama tíma erum við með löggjöf sem keyrir atvinnustig ákveðinna manna niður, þ.e. fækkar sífellt sóknardögum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Vekur það hann ekki til umhugsunar að við séum með lög sem taki atvinnustig manna niður í sömu atvinnugrein þegar verið er að auka atvinnumöguleika annarra? Hvernig stenst það stjórnarskrána?