Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:49:01 (6580)

2004-04-16 16:49:01# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:49]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði að það væri samhengi við aðrar takmarkanir. Á að skilja orð hæstv. ráðherra svo að þegar búið er að bæta verulega við í fisktegundum sem snúa að hinum almenna botnfiskflota eins og ýsunni, þorskinum, tvöföldun ufsakvótans, að hann líti svo á að það sé jafnræði á milli þeirra sem hafa verið að auka við sig atvinnu og auka við sig tekjumöguleika, m.a. með 16% línuívilnun sem á að taka gildi 1. september, að það sé jafnræði með þeim aðilum sem stunda sjávarútveg og fiskveiðar og þeim sem stunda veiðar eftir dagareglunni og telja sífellt niður atvinnumöguleika sína? Á ég að trúa því að hæstv. ráðherra ætli að túlka íslensk lög og stjórnarskrá þannig að það sé jafnræðisregla að einn hópur manna skuli vera skorinn niður í atvinnulegu tilliti þegar annar er að auka við sig?

Ég verð að segja að ég verð fyrir miklum vonbrigðum ef ráðherrann lítur svo á að það sé hægt að láta dagamennina vera í þessu niðurskurðarkerfi ár eftir ár, á sama tíma og aðrir eru að bæta við sig og hann telji að það standist stjórnarskrá. Lögin stóðust örugglega stjórnarskrána þegar þau voru sett, eins og ráðherrann vék að áðan. En ég lít svo á að miðað við þróunina núna standist þau ekki stjórnarskrána. Þess vegna lít ég svo á að hæstv. ráðherra sé að standa fyrir lögbrotum ef hann heldur áfram að láta lögin gilda óbreytt.