Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:52:21 (6582)

2004-04-16 16:52:21# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:52]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Við höfum m.a. verið að ræða um fiskveiðistjórn og alls konar reglur. Það er ein regla sem mig langar að spyrja hæstv. sjútvrh. út í, en ég er líffræðingur og það er farið að fyrnast yfir þá litlu fiskifræði sem ég lærði, en það er 30 þús. tonna sveiflujöfnunarreglan. Ég hef oft verið að velta fyrir mér röksemdum á bak við regluna og hef aldrei botnað í því hvaðan þessi 30 þús. tonn koma. Það væri ágætt ef hæstv. sjútvrh. mundi rifja upp fyrir mér líffræðina á bak við sveiflujöfnunarregluna, ef hann hefur tök á því. Ég á ekki von á öðru vegna þess að hann hefur hrærst lengi í fiskveiðistjórn og öllum þessum reglum, 25% veiðireglum, og oft eru rökin sem liggja á bak við reglurnar ekki ljós fyrir mér. Það væri mjög áhugavert að fá upprifjun á rökunum á bak við 30 þús. tonna sveiflujöfnunina. Fyrir mér hafa þau alltaf verið algjörlega óskiljanleg.