Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:53:43 (6583)

2004-04-16 16:53:43# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg sjálfsagt að rifja upp rökin fyrir sveiflujöfnuninni fyrir hv. þm. Þau eru, eins og hann veit af því hann er líffræðingur, að mælingar á náttúrunni eru háðar óvissu og við getum fengið mismunandi niðurstöður við endurteknar mælingar á sama hlutnum án þess að nokkuð hafi raunverulega breyst á milli mælinganna. Þess vegna er tekið tillit til þess þegar um sveiflujöfnun er að ræða að í aflareglunni er einungis um eina mælingu að ræða og að láta ekki þá einu mælingu, sem hugsanlega breytist, taka út mikla sveiflu á milli ára og takmarka hana þar með við 30 þús. tonn. sem er viðmiðun úr mikilli skýrslu þar sem er mjög mikið tölfræðilegt efni sem hv. þm. hefði gott af að lesa. Skýrslan var gefin út af aflareglunefndinni 1994 og sjálfsagt að ég ljósriti eintak mitt af henni til þess að hann geti rifjað upp tölfræðina um leið og hann rifjar upp líffræðina.