Þriðja kynslóð farsíma

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 17:07:00 (6587)

2004-04-16 17:07:00# 130. lþ. 100.4 fundur 815. mál: #A þriðja kynslóð farsíma# frv., BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[17:07]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Ég fullyrði hér að þarna trampar hæstv. samgrh. villigötur, að útboðsleiðin býður upp á það að aðferðir geðþóttans og flokksgæðinganna fái að ráða för en ekki reglur jafnræðis og sanngirni. Og undir það hefur Morgunblaðið tekið, eins og ég sagði áðan, og (Gripið fram í.) ég tek mikið mark á Morgunblaðinu. Einnig, svo ég vitni í fleiri málsmetandi aðila í samfélaginu, ritaði þá hv. þm. Sjálfstfl. en nú hæstv. menntmrh., Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, grein í Morgunblaðið hinn 8. des. árið 2000 þar sem hún segir, með leyfi forseta:

,,Ekki er líklegt að tortryggni gæti við úthlutun leyfanna ef uppboð er valið, hvorki meðal almennings eða farsímafyrirtækja.

Þetta síðasta atriði vegur að mínu mati þyngst í rökstuðningnum fyrir því að fara eigi uppboðsleiðina. Slík aðferð er til þess fallin að vekja traust almennings á framtíð þessara mikilvægu almannahagsmuna og frið um úthlutun leyfa til þriðju kynslóðar farsíma. Uppboð á farsímarásum er því skynsamur valkostur og sanngjörn leið.``

Undir þau orð hæstv. núverandi menntmrh. tek ég mjög eindregið og brýni hæstv. samgrh. að endurskoða það sem lagt er til í 5. gr. frv. þar sem lögð er til útboðsleiðin, þar sem það vekur upp tortryggni um að menn ætli að hygla flokksgæðingum stjórnarflokkanna hverju sinni, en ekki sú leið að leyfa öllum að keppa á jafnréttisgrundvelli þar sem það ræður úthlutun leyfanna hver býður best. Þannig eiga menn að standa að slíkum hlutum rétt eins og með aðrar takmarkaðar auðlindir í þjóðareigu. Því er það í raun algjörlega óskiljanlegt af hverju hæstv. samgrh. gengur fram með svo glannalegum og undarlegum hætti að leggja til útboðsleiðina í staðinn fyrir að fara leið réttlætis og sanngirni sem felst í uppboði á fjarskiptarásum.