Þriðja kynslóð farsíma

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 17:09:10 (6588)

2004-04-16 17:09:10# 130. lþ. 100.4 fundur 815. mál: #A þriðja kynslóð farsíma# frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[17:09]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að þessi ræða var með miklum ólíkindum, að halda því fram að formlegt útboð á grundvelli laga sem vonandi er verið að undirbúa hér, leiði til þess að flokksgæðingar eigi einhvern sérstakan aðgang að því að fá leyfi til að reka fjarskiptakerfi sem nefnist þriðja kynslóð farsíma. Það er mikil reynsla, eins og ég nefndi áður, fyrir útboði og þessi ræða hv. þm. hefði kannski getað verið flutt árið 2000 eða 2001 þegar menn voru alveg sannfærðir um að það væri vísasti vegurinn á miklar tekjur fyrir ríkissjóð að láta símafyrirtækin keppa um að borga fyrir þessi leyfi. Þannig að þessi ræða er aftan úr grárri forneskju reynslunnar á sviði fjarskipta. Ég held því að hv. þm. ætti að rifja málið algerlega upp að nýju. Reynslan er sú að fjarskiptafyrirtækin sem fóru að keppa eftir þeirri hugmyndafræði sem hv. þm. vill fara, komust meira og minna öll í mikil vandræði, lentu í miklum ógöngum, rekstrarlegum ógöngum vegna þess að þau voru að keppa á forsendum sem byggja á því að senda háan reikning fyrir afnot af þessum tíðnum til notenda. Því förum við þessa leið og ég er alveg sannfærður um að formaður Samf. er mér sammála.