Þriðja kynslóð farsíma

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 17:11:07 (6589)

2004-04-16 17:11:07# 130. lþ. 100.4 fundur 815. mál: #A þriðja kynslóð farsíma# frv., LS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[17:11]

Lára Stefánsdóttir:

Frú forseti. Nú hefur hæstv. samgrh. lagt fram frv. um þriðju kynslóð farsíma sem ég fagna mjög að sjá hér vegna þess að það er mjög mikilvægt að við höfum allt starfsumhverfið í kringum nýja tækni sem við viljum nota í því sem við erum að fást við. Það er nauðsynlegt að gera fólki kleift að nota þetta kerfi sem þó í eðli sínu er upphaflega mótað til þess að þjóna miklum mannfjölda. Þess vegna nefndi hæstv. ráðherra einmitt t.d. Japan, þar virkar það mjög vel þar sem mikill mannfjöldi er saman komin á sama punkti. Þetta er því nákvæmlega það kerfi sem við þurfum að nota á menningarnótt í Reykjavík og stórfundi á Þingvöllum.

Einnig gerir það fólki kleift að nýta farsímann sinn til að fara á myndfund, sækja sér fréttaklippu frá fréttastofum eða tengjast myndbandi, sem reyndar fáar byggðir úti á landi njóta með annarri tækni í dag. Ég velti því þess vegna fyrir mér í hvað og nákvæmlega hvenær fólk kaupir sér aðgang að þessari tækni um alla landsbyggðina þannig að það réttlæti verðið sem upp er sett og þá afsláttarhætti sem settir eru upp.

Sú tækni sem við notum nú, MMS og GPRS, gerir mikið af þeim hlutum sem við erum að sækjast eftir en er auðvitað, og ég vil benda á það, hægvirkari en sú tækni sem þriðja kynslóð farsíma vill njóta. En mikilvægt er að tryggja reikisamninga í tengslum við þriðju kynslóð farsíma þannig að þeir sem velja sér þjónustu hjá einu símafyrirtæki geti gert ráð fyrir að nýta hana til sendinga til þeirra sem velja sér þjónustu hjá einhverju öðru.

Í dag er það stór galli að símanotendur hjá öðru símafyrirtækinu í landinu geta ekki sent myndir til notenda í hinu símafyrirtækinu, á milli þeirra eru ekki reikisamningar um GPRS-tækni. Og reyndar eru þessir samningar ekkert mjög víða. Sá sem fer í sumarleyfi til Spánar og er með þjónustu hjá Símanum getur ekki sent myndir heim úr fríinu til fjölskyldunnar úr farsímanum sínum, meðan sá sem fer til Makau, Hong Kong, Tævan eða Singapúr getur gert það. Sá sem fer til Ungverjalands getur sent mynd heim en ekki sá sem fer til Belgíu eða Svíþjóðar. Reikisamningar eru því grundvallarforsenda til þess að jöfn samkeppnisstaða sé á markaði þannig að menn geti sent hver til annars og tryggja þarf að slíkt sé gert.

Ég velti einnig fyrir mér, hæstv. forseti, hvaða möguleikar eru fyrir hendi til að ná í þann afslátt sem í boði er fyrir þá sem ná til fleiri en 60% íbúa á tilteknu svæði í dreifðum byggðum. Sendar fyrir þriðju kynslóð farsíma geta sent um helmingi styttri vegalengd en sendar sem eru nýttir fyrir GSM-síma í dag og við sem búum á landsbyggðinni vitum mætavel að það er býsna götótt kerfi sem við búum við og mörg samtöl rofna fyrr en maður hefur sérstakan áhuga á þegar maður er á ferð heima í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi.

Þegar um helmingi fleiri senda þarf fyrir þriðju kynslóð farsíma kostar það auðvitað heilmikið meira. Kostnaður símafyrirtækjanna yrði því, frú forseti, a.m.k. helmingi hærri en hann er fyrir GSM-síma í dag. Því vil ég brýna menn þegar þeir skoða frv. nánar að skoða vel hvort afslættirnir séu raunhæfir í samhengi við það að fá góða þjónustu þannig að fólk njóti tækninnar sér til hagsbóta en lendi ekki í alls konar pyttum sem fyrirtæki eru að leggja á leið þeirra til þess að geta nýtt hana sér til hagsbóta.