Bann við umskurði kvenna

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 10:49:23 (6593)

2004-04-23 10:49:23# 130. lþ. 101.13 fundur 198. mál: #A bann við umskurði kvenna# frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[10:49]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Frú forseti. Frv. til laga um bann við umskurði kvenna er bæði mjög mikilvægt og merkilegt mál og ber að fagna því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir skuli hafa haft forgöngu um að flytja það á hinu háa Alþingi.

Ég tel einboðið að frv. af þessu tagi verði samþykkt af Alþingi Íslendinga og tek undir með hv. flm. Hér höfum við tækifæri til að gefa gott fordæmi heima fyrir og einnig til að koma í veg fyrir að stúlkubörn verði nokkru sinni umskorin hér á landi þannig að það liggi algjörlega fyrir og fortakslaust að misþyrming kynfæra barna og kvenna sé bönnuð á Íslandi. Þau skilaboð þurfa að vera mjög skýr, bæði hér heima fyrir og einnig í alþjóðlegu samstarfi Íslands við aðrar þjóðir.

Tilefni þess að ég kem upp hér er ekki einungis vilji til að lýsa ánægju minni með þetta frv. heldur einnig til að benda á að það er einmitt mjög mikilvægt í umfjöllun um þessi mál, um réttindi kvenna, um ofbeldi gegn konum og börnum, að við sjáum í henni samhengi við það sem Ísland er að segja og gera á erlendri grundu og að við setjum baráttu okkar gegn umskurði stúlkubarna inn í utanríkisstefnu Íslands, gerum hana að máli sem við vinnum að, hvort heldur er innan SÞ eða annars staðar á alþjóðlegum vettvangi þar sem færi gefst.

Það er t.d. vitað að Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna gengst fyrir mörgum góðum fræðsluverkefnum sem vinna gegn umskurði kvenna og það væri hægur leikur fyrir Íslendinga að styrkja slík verkefni og sýna í verki að okkur er full alvara með það að vinna gegn umskurði stúlkubarna.

Eins og hv. flm. sagði er umskurður kvenna, misþyrming á kynfærum kvenna og barna, félagslegt vandamál fyrst og fremst og hefur mjög lítið með trú eða trúarbrögð að gera. Hann á djúpar rætur, oft frumstæðar, mjög djúpar rætur í þeim samfélögum þar sem slíkur verknaður er tíðkaður og endurspeglar að sjálfsögðu ævafornt viðhorf til kvenna sem eru því miður í löndum þar sem umskurður tíðkast oft álitnar eign feðra sinna og síðan eign eiginmanna sinna. Í þessum löndum er umskurðurinn eins konar aðferð til að gera oft bráðungar stúlkur gjaldgengar á hjónabandsmarkaði ellegar vill enginn giftast þeim eða eiga þær.

Það er mjög rík ástæða til að taka á hinu félagslega umhverfi og dæmin sanna að fræðsla skilar sér. Það þarf auðvitað mjög mikla og ítarlega fræðslu og það þarf að ná til fólks sem oft og tíðum er hvorki læst né skrifandi. Það kallar á mikla vinnu, mikið úthald, kannski ekkert svo mikla peninga en alveg örugglega mjög mikinn pólitískan vilja, bæði stjórnvalda í landinu sem á í hlut og svo einnig þeirra stjórnvalda sem vilja tryggja að slík vinna fari fram og að alþýða manna sé uppfrædd um það að umskurður er ekkert annað en misþyrming og gengur gegn mannhelgi stúlkubarna og kvenna og veldur þeim engu nema kvölum þegar upp er staðið.