Bann við umskurði kvenna

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 10:53:47 (6594)

2004-04-23 10:53:47# 130. lþ. 101.13 fundur 198. mál: #A bann við umskurði kvenna# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[10:53]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Frú forseti. Flm. hefur gert mjög vel grein fyrir þessu alvarlega máli. Ég styð það og tek undir með þeim sem hér hafa talað. Að sjálfsögðu eigum við að færa þetta í lög á Íslandi. Á Íslandi eru skýrar, lögfestar reglur um það hvernig Íslendingar eiga að haga sér, hvað má og hvað má ekki, og það er ætlast til að við förum eftir þeim. Það er afdráttarlaust skoðun mín að allir þeir sem ákveða að koma og deila með okkur kjörum í samfélagi okkar eigi að fallast á að lifa með okkur í þessu þjóðfélagi og hlíta reglum okkar og lögum. Þannig á það að vera og við eigum að hafa skilning á málefnum þeirra sem hingað koma en afdráttarlaust eiga að gilda eins reglur fyrir alla.

Þess vegna er mikilvægt að það gildi líka reglur um alla að þessu leyti. Ég tek undir það að hér erum við ekki að fjalla um eitthvað sem á trúarlegar rætur. Því hefur oft verið snúið þannig að umskurður eigi sér trúarlegar rætur en það er rangt, þetta er samfélagslegt fyrirbrigði og hörmulegur ofbeldisverknaður.

Það er ekkert vafamál í mínum huga að það á að vera bann við þessum verknaði, ekki bara í lögum okkar heldur alls staðar á Vesturlöndum. Það á að fylgja því eftir að slíkum lögum sé framfylgt og tryggja að í gang fari eitthvert ferli ef það vottar fyrir slíku hér. Slíkt mál þarf að komast til skila til réttra aðila. Við eigum að tryggja þetta og hafa okkar skýru og góðu lög sem gilda almennt. Undir þau falla bæði Íslendingar og þeir sem koma og vilja lifa með okkur.

Svo tek ég undir með Þórunni Sveinbjarnardóttur, hv. þm. Samf., að þetta verði hluti af utanríkisstefnu okkar. Það væri sómi að því og það væri sérstakt að Ísland, sem ég er óþreytandi að nefna að getur haft sterka rödd á alþjóðavettvangi þó að það sé smáríki, tæki það inn í utanríkisstefnu sína að tekið yrði á þessum málum alls staðar í alþjóðasamfélaginu þar sem við erum aðilar.