Bann við umskurði kvenna

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 11:05:50 (6597)

2004-04-23 11:05:50# 130. lþ. 101.13 fundur 198. mál: #A bann við umskurði kvenna# frv., Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[11:05]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Ég þakka afar jákvæðar undirtektir sem þetta frv. hefur fengið hjá hv. þingmönnum. Ég tek undir með hv. þingmönnum Samf. um að auðvitað á atriði af þessu tagi að verða hluti af utanríkisstefnu okkar og við eigum að tala fyrir málstað þessara stúlkna og kvenna hvar sem er og innlima þann málstað og þann málflutning í alla okkar umræðu um utanríkismál.

Það er eitt sem mig langar til að nefna sem kannski veganesti þessa máls inn í nefndina. Eftir að frv. var prentað og því dreift í þingsölum hefur fólk komið að máli við mig og sagt mér af ýmissi þekkingu sem er til staðar úti í samfélaginu varðandi þessi mál og það hvernig þessum málum vindur fram á alþjóðavettvangi. Eitt mætti hv. heilbrn. hugleiða í umfjöllun sinni um málið, það hvort við ættum ekki að láta það nægja sem flóttamannastatus hér á landi að stúlkur eða konur séu að flýja þennan verknað. Það kann að vera að mæður þurfi hreinlega að grípa til þess ráðs að flýja með dætur sínar til að forða þeim frá þessum verknaði og það yrði þá að samþykkjast af okkar hálfu sem gild ástæða fyrir því að viðkomandi sækti um flóttamannastatus í landinu. Ég held að þetta sé atriði sem nefndin gæti tekið til skoðunar og athugað hvernig því er háttað í nágrannalöndum okkar.

Vegna Eyðimerkurblómsins eftir Waris Dirie sem nefnt var til sögunnar rétt áðan vil ég segja að hún hefur einmitt verið afar mikilvirk í því að koma málefninu í umræðu en hún hefur verið gerð út sem sérstakur sendiherra SÞ til að vekja athygli fólks á þeim hörmulegu afleiðingum sem þessi verknaður getur haft.

Að öðru leyti þakka ég fyrir umræðurnar og hlakka til að sjá hvernig hv. heilbrn. tekur á málinu.