Kvennahreyfingin á Íslandi

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 11:36:15 (6604)

2004-04-23 11:36:15# 130. lþ. 101.14 fundur 199. mál: #A kvennahreyfingin á Íslandi# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[11:36]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við þessari spurningu er nei, hv. flm. hafa ekki velt fyrir sér neinum fjárhæðum í þessum efnum. Það skiptir mestu máli að prinsippið fari inn í lög og reglur. Það skiptir verulegu máli að stjórnvöld og auðvitað Alþingi fái að fjalla um það hversu mikið þetta er, hversu mikil þörfin er. Ég gat þess áðan að til stjórnvalda í Reykjavíkurborg einni koma á hverju ári 15--20 umsóknir um fjárstuðning til þess að fólk geti sinnt verkefnum sem mundu falla undir mögulegan sjóð af þessu tagi. Við vitum í raun og veru ekki hversu mikil þörfin er en við sjáum að hún er talsverð og ég tel að í ferli þeirrar nefndar sem fær þetta mál til umfjöllunar verði það skoðað sérstaklega og síðan muni fjárln. Alþingis fara enn betur í saumana á því. Flm. hafa ekki lagt hér neinn merkimiða eða neina upphæð fram með málinu.