Kvennahreyfingin á Íslandi

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 11:37:21 (6605)

2004-04-23 11:37:21# 130. lþ. 101.14 fundur 199. mál: #A kvennahreyfingin á Íslandi# þál., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[11:37]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta svar kemur mér svolítið á óvart, að flutningsmenn skuli ekki hafa velt þessu fyrir sér því að mér finnst það skipta talsvert miklu máli.

Það er líka önnur athugasemd sem mig langar að gera við þessa þáltill. Það er í raun spurningin hvort við séum ekki einmitt með þessu að dreifa kröftunum of mikið. Væri ekki nær fyrir þingmenn, til að mynda stjórnarandstöðunnar og líka stjórnarinnar þess vegna, að reyna að beina kröftum sínum og aðhaldi að stjórnvöldum til þess að nýlegri áætlun sem lögð var hér fram um t.d. jafnréttismál til fjögurra ára verði þá fylgt eftir næstu fjögur árin, að við reynum að einbeita okkur að því? Þar höfum við skilgreind markmið og meginhugmyndir um það hvernig verkefnin eigi að líta út, hverjir eigi að bera ábyrgð á framkvæmdunum, hverjir eigi að vera þátttakendur og hver tímaáætlunin er. Er ekki hollara að taka eitt skref í einu í staðinn fyrir að reyna að taka mörg skref á sama tímapunkti?