Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 12:11:25 (6613)

2004-04-23 12:11:25# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[12:11]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég lít svo á að þetta sé gott frv. Auðvitað verður það skoðað vel í nefnd. Það er ekki auðvelt að leggja mat á það um leið og maður lítur á frv. og uppdrátt sem því fylgir og mynda sér skoðun á því hvort svæði sem þetta ætti að vera minna eða stærra eða hvort umgjörð svæðisins sé sú sem hún ætti að vera. Í fljótu bragði virðast útlínur svæðisins settar þannig fram að það sé rökrétt.

Það er ánægjulegt og athyglisvert að nú eru tvö frumvörp fyrirliggjandi á Alþingi sem varða helgistaðinn okkar, Þingvelli. Það er afar mikilvægt. Staðurinn er forn þingstaður, sögustaður og merkilegt náttúrufyrirbrigði eða náttúrusvæði. Það er því afar mikilvægt að við stöndum vörð um þetta svæði og tryggjum með lagasetningu vernd á svæðinu.

Ég tók eftir nokkru sem olli mér nokkurri furðu að í 2. gr. frv. sem fjallar um vatnsverndun innan þjóðgarðsins á Þingvöllum, eins og mörk hans eru ákveðin í lögum, gilda ákvæði laga um þjóðgarðinn. Ég spyr hæstv. umhvrh. hvort aðgerðir sem umhvrh. getur gripið til vegna vatnasvæðisins eigi líka við um þjóðgarðinn þó að öðruvísi lög gildi um hann.

Í frv. til laga um þjóðgarðinn segir:

,,Þá getur Þingvallanefnd sett reglur um meðferð spilliefna, frárennslis og annars sem hætta er á að mengi jarðveg og/eða vatn innan þjóðgarðsins, þar með talið Þingvallavatn, og flutning hættulegra efna og mengandi efna innan þjóðgarðsins.``

Það er kannski að einhverju leyti farið víðtækari orðum um þetta í frv. um vatnsverndarsvæðið en ég vildi sérstaklega spyrja um þetta.

Mig langar líka að spyrja hæstv. umhvrh. hvort setja eigi umferð einhverjar skorður. Mun það eiga sérstaklega við um flutninga á vegum, flutningabifreiðir með hættuleg efni, t.d. olíu? Á að setja því skorður að slíkir vagnar geti farið um? Ef olíubíll færi út af og farmurinn færi niður í hraunið þá væri það mjög alvarlegt mál. Mér sýnist að frv. gefi heimildir til að setja skorður þar sem það á við en ég spyr hvort það verði settar einhverjar reglur um umferð um svæðið.

Ég vil líka spyrja um hvort einhver áform séu uppi varðandi sumarbústaðina. Eru uppi áform varðandi þá byggð sem þegar er til staðar? Á að reyna að draga úr henni? Á að reyna að kaupa upp bústaði, eftir því sem losnar um og bústaðir eru boðnir til sölu, eða á jafnvel að fjölga bústöðum á svæðinu og koma upp sumarbústaðalandi til viðbótar því sem er á svæðinu? Ég spyr sérstaklega að þessu í sambandi við meðferð sorps og minni á að prófessor Pétur M. Jónasson hefur fjallað um það mál og lýst áhyggjum sínum varðandi það. Það er mjög mikilvægt að það liggi hvert við stefnum í þessum efnum.

Enn fremur fær umhvrh. heimild til að stjórna vatnshæð í Þingvallavatni. Vatnshæð í Þingvallavatni hefur m.a. áhrif á strauma í Öxará. Áhugavert væri að vita hvort stefnt er að því að setja vatnshæð vatnsins í upprunalegt horf. Verða settar strangari reglur varðandi vatnshæðina en Landsvirkjun hefur hingað til fylgt?

Um leið og ég lýsi því yfir að þetta sé gott frv. og mikilvægt sé að við tryggjum löggjöfina um þjóðgarðinn og verndun vatns- og vatnasviðs þá vil ég benda á mikilvægi þess að ljóst sé hvert við ætlum að stefna. Hvaða reglur eða mörk verða sett og hvar er þörf fyrir slíkt? Það þarf ekki síst að vera ljóst varðandi hættuleg efni.

Að lokum væri ekki úr vegi að heyra hvað ráðherrann hefur að segja um Gjábakkaveginn. En að þessum spurningum loknum lýsi ég yfir nokkuð mikilli ánægju með frumvarpið.