Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 12:39:11 (6617)

2004-04-23 12:39:11# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[12:39]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það að komandi kynslóðir Íslendinga munu sennilega ekki líta blíðum augum á það sem er að gerast nú við Kárahnjúka. Ég held að það sé nokkuð ljóst að þær framkvæmdir eru og verða umdeildar svo lengi sem land er í byggð.

Hvað hitt varðar, húsbyggingar á þessu mikla vatnsverndarsvæði, vil ég einfaldlega benda á eins og kemur fram á þessu korti, að hér er um gríðarlega stórt svæði að ræða. Ég var ekki að segja að menn ættu að geta byggt eins og þeim sýnist eftir eigin hentisemi. Hins vegar tel ég að það að veita byggingarleyfi á þessum svæðum, að skipuleggja þessi svæði, byggð og annað þess háttar, húsbyggingar, sé miklu frekar hlutverk sveitarstjórna en eins ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Við vitum jú hversu ráðherrar geta verið brokkgengir í ákvörðunum sínum og vitum líka hversu mistækir þeir geta verið í ákvörðunum sínum. Ég vil ekki leggja það í vald einnar manneskju að hún fái að deila og drottna á þessu svæði hvað varðar byggingar og framkvæmdir. Ég tel miklu eðlilegra að þar fái heimamenn að ráða ferðinni en að sjálfsögðu verði farið eftir mjög ströngum reglum, t.d. hvað varðar mengunarhættu frá slíkum mannvirkjum, skolp og annað þess háttar.

Ég tel líka að það ætti að fara mjög vel yfir það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á áðan varðandi olíuflutninga á þessu svæði. Það er hlutur sem ætti að fara mjög vandlega yfir því ef olía kemst einu sinni niður í kerfið, þetta mikla vatnskerfi sem er lýst mjög vel í ágætri bók sem ég nefndi áðan, Þingvallavatn --- Undraheimur í mótun, yrði það nánast óafturkræft slys á því svæði. Að minnsta kosti yrði það mjög erfitt því jarðvegur er mjög gljúpur í þessu hrauni, þessum hraunmyndunum. Þarna er mikið grunnvatn, gríðarlega mikið grunnvatn. Það er einmitt það sem gerir Þingvallavatn að þeirri einstöku perlu sem það er, og það ætti að fara vel yfir slíka flutninga. En húsbyggingar, já, segi ég, ef sveitarstjórnir samþykkja og ef heimamenn samþykkja, en undir ströngum skilyrðum.