Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 13:08:16 (6627)

2004-04-23 13:08:16# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[13:08]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað mun reyna á það með einstökum dæmum þegar þar að kemur og ég er alveg klár á því að það mun gerast. Þess vegna held ég því enn og aftur fram að það séu röng skilaboð að segja að lagasetning af þessu tagi leiði ekki til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð. Hún mun einfaldlega gera það og þá á ekki að segja eitthvað annað. Það er auðvitað ekki hægt að leggja fram neina kostnaðaráætlun fyrir slíku en það kemur að því að einhverjir sækja bætur í ríkissjóð ef þessum takmörkunum verður beitt eins og hæstv. ráðherra lýsti mjög skýrt yfir að yrði gert í ræðu sinni á undan.

Þetta fer kannski að líta svolítið út eins og þvarg af minni hálfu en mér finnst einfaldlega að ég hafi lesið of margar slíkar umsagnir frá fjmrn. í hinum ýmsu málum þar sem því er haldið fram næstum algerlega fortakslaust að ekki muni falla kostnaður á ríkissjóð vegna hinna einstöku mála þó að í ákvörðunum sem falla eins og í þessu máli sé fólginn réttur og skylda jafnvel ráðherra til þess að taka á hinum einstöku málum og sem munu örugglega kosta einhverja fjármuni og skerða möguleika viðkomandi aðila sem þeim ákvörðunum er snúið að o.s.frv., og þá eigi ekki að senda röng skilaboð héðan um að ekki sé verið að búa til kostnaðartilefni fyrir ríkissjóð með lagasetningunni. Það er einfaldlega verið að búa til hugsanlega mörg kostnaðartilefni fyrir ríkissjóð með lagasetningunni og menn eiga auðvitað að viðurkenna að svo sé.