Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 13:48:38 (6631)

2004-04-23 13:48:38# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir að sýna bersýnilega jákvæðan vilja gagnvart þessu máli sem ég tók til umfjöllunar. Auðvitað hefði mér þótt betra ef hæstv. ráðherra hefði kannað hug Landsvirkjunar varðandi þetta atriði, ekki síst í ljósi þess að ríkisstjórnin virðist almennt vera mjög jákvæð í málinu. Hún er að því leyti til samstiga fyrri ríkisstjórn sem fór frá völdum 1995. Þar hafði þetta mál komið til óformlegrar umræðu og ég rifja það upp að þáverandi hæstv. landbrh., núverandi forseti þingsins, lýsti einmitt þessum vilja sínum í einni af síðustu ræðunum sem hann hélt á þinginu 1995.

Ég fagna því hins vegar ef hæstv. umhvrh. ætlar að beita sér fyrir því að Landsvirkjun grípi til þessara ráðstafana. Ég vil líka segja að málið varðar með öðrum hætti lífríki Þingvallavatns vegna þess að þegar stíflan var gerð á sínum tíma var vatnsborðið hækkað. Það þýddi að það sem áður var heppilegur straumur fyrir hrygningu urriða í Öxará varð miklu lygnara umhverfi sem gerði það að verkum að urriðinn átti erfiðar uppdráttar á þeim stöðum. Allt helst þetta í hendur.

Ég ítreka að þetta er mál sem við sem Alþingi hefur trúað fyrir að sitja í Þingvallanefnd berum talsvert ríkulega fyrir brjósti.