Framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 13:53:18 (6636)

2004-04-23 13:53:18# 130. lþ. 101.94 fundur 489#B framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum# (um fundarstjórn), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þetta mál er til meðferðar í ríkisstjórn og ég á ekki von á öðru en að ríkisstjórnin vilji að það fái þinglega meðferð. Mikið hefur verið rætt um þá skýrslu sem óskað var eftir af hálfu ríkisstjórnar að menntmrh. skipaði á sínum tíma. Samf. er þeirrar náttúru, það er svo ánægjulegt, að hún getur fjallað um svona skýrslur án þess að fá þær.

Í útvarpinu þann 15. apríl segir nefnilega fyrrv. formaður Samf., Bryndís Hlöðversdóttir, með leyfi forseta. (Gripið fram í: Meinarðu formann þingflokksins?) Já. Hvað sagði ég? (Gripið fram í: Formaður Samf.) Nei, guð minn góður, það er nóg til af þeim. Með leyfi forseta:

,,Nefnd um eignarhald á fjölmiðlum hefur kollvarpað málflutningi stjórnarflokkanna um nauðsyn lagasetningar að mati Bryndísar Hlöðversdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.`` --- Síðan segir neðar í fréttaskeytinu, með leyfi forseta: ,,Bryndís hefur ekki séð 180 blaðsíðna skýrsluna ...`` en hún vissi þó að skýrslan hefði kollvarpað afstöðu ríkisstjórnarinnar. Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Bryndís er sammála nefnd menntamálaráðherra um að Samkeppnisstofnun eigi að koma að eftirliti með fjölmiðlum.``

Þann 15. apríl getur fyrrv. formaður þingflokks Samf. tjáð sig í bak og fyrir um skýrslu sem hún hefur aldrei séð. Það er afskaplega góður eiginleiki í stjórnmálaflokki að geta gert þetta með þessum hætti. Hann þarf ekki að fá neina skýrslu. Við í ríkisstjórninni erum hins vegar háð þeim annmarka að við þurfum að lesa skýrslur af þessu tagi og síðan þurfum við að semja frumvörp í kjölfarið ef þess er þörf. (Gripið fram í.) Ég get upplýst það hér fyrst um er spurt að nefndin telur þess fulla þörf að það verði gert. Ég geri ráð fyrir að slíkt frv. verði lagt fram og ég geri ráð fyrir því að þingið afgreiði það ef það kemur fram og taki sér til þess þann tíma sem það þarf.