Framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 13:55:16 (6637)

2004-04-23 13:55:16# 130. lþ. 101.94 fundur 489#B framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum# (um fundarstjórn), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Mörður Árnason:

Forseti. Það eru ákaflega sérkennileg svör sem hæstv. forsrh. veitir hér við spurningunni. Nefndin hefur skilað áliti sínu, það hefur legið hjá ráðherranum og ráðherrunum hæstv. öllum, nú í hálfan mánuð, rúmlega það. Það hefur lekið út af því nánast þannig að manni finnst eins og um skipulegan leka sé að ræða. Um hvað fjallar nefndarálitið? Um hvað fjalla þau frumvarpsdrög sem nú eru uppi? Þau fjalla um fjölmiðlana, fjalla um lýðræðið í landinu. Þeim er hins vegar skipulega haldið frá umræðu og umfjöllun í samfélaginu og héðan frá þinginu nema með því að einstökum lekum er sem sé stjórnað. Við þökkum fyrir þann síðasta leka sem berst hingað upp í ræðustól en hann er sá, þvert á það sem sagt hefur verið í hinum fyrri lekum, að nefndin hafi endilega viljað að þessar breytingar kæmu fram í frumvarpsformi og það strax.

Í erindisbréfi frá hæstv. menntmrh. sem var þá hæstv. Tómas Ingi Olrich, á sínum tíma fyrir jólin, var nefndinni falið að semja frumvarpsdrög ef henni þætti þurfa á að halda. Það gerði nefndin ekki --- eða hvað, hæstv. forsrh., gerði nefndin það? Samdi hún frumvarpsdrög? Þær fréttir, þeir lekar sem hingað til hafa borist af þessu benda ekki til þess og þeir lekar sem hingað til hafa komið til okkar benda til þess, segja okkur að hæstv. forsrh. hafi sjálfur, ekki nefndin og ekki sá ráðherra sem skipaði nefndina, ekki þeir aðrir ráðherrar á þessu fagsviði sem hugsanlega kæmi þetta mál við, heldur hafi forsrh. tekið það að sér að semja þessi frumvarpsdrög. Síðan á ríkisstjórnarfundi í vikunni, á þriðjudaginn, hafi hann lagt það fram og ráðherrarnir tekið sér enn umhugsunartíma til að hugsa bæði um frumvarpsdrögin og lesa álit nefndarinnar. Í dag er heldur ekki haldinn ríkisstjórnarfundur þó að hann hafi verið boðaður eða kynntur eða a.m.k. lekið út að hann ætti að verða kl. eitt. Hann er ekki heldur haldinn og auðvitað er einfaldasta skýringin á því sú að menn séu enn að lesa skýrsluna, þ.e. að menn séu ekki sammála um frumvarpsdrögin.

Vill ekki hæstv. forsrh. segja okkur hvað það er nákvæmlega þessar vikurnar, hvaða vá það er sem steðjar að okkur og fjölmiðlum í landinu, slík og stórkostleg, að það þurfi eins og hann segir að framlengja þingið ef á þarf að halda til að koma í veg fyrir þau tíðindi sem nú eru að sprengja í loft upp lýðræðið á Íslandi og samskipti manna í fjölmiðlum?