Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:28:45 (6646)

2004-04-23 14:28:45# 130. lþ. 101.4 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:28]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Þessi leikur á milli flugvallaskatts og flugvallagjalds er bráðskondinn. Ég vildi hins vegar spyrja hæstv. ráðherra: Hver er lögskýringarmunurinn á flugvallaskattinum og flugvallagjaldinu? Eins og ráðherra kom inn á er flugvallagjaldið skilgreint þannig að það eigi að vera þjónustugjald og standa undir ákveðnum skilgreindum raunkostnaði. Mín túlkun á skatti er hins vegar sú að það sé upphæð sem renni í sjálfu sér í ríkissjóð, skattheimta sem renni í ríkissjóð. Þau verkefni sem ríkissjóður ber ábyrgð á á þessu sviði sem hér eru tilgreind eru fjármögnuð úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum.

Því verð ég að draga þessa framsetningu í efa og spyrja hæstv. ráðherra hvernig hægt er að leggja á skatt en verja þessum skatti samhliða til sérgreindra verkefna, t.d. til rannsókna og sérstakra verkefna í flugöryggismálum og öðru sem lýtur beint að rekstri flugvalla. Þessi orðanotkun, lögskýringar á orðunum ,,flugvallaskattur`` og ,,flugvallagjald``, finnst mér renna saman í frv.