Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:32:52 (6648)

2004-04-23 14:32:52# 130. lþ. 101.4 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það verður í sjálfu sér farið ítarlegar í gegnum málið efnislega í hv. samgn. og aðra þætti sem tengjast því í rekstri flugvalla og flugstöðva. Það sem ég vek athygli á er að skilgreiningin á skattinum er með þeim hætti að honum er ekki ætlað að dekka á hverjum tíma einhvern beinan kostnað, heldur er hann tekjustofn fyrir ríkissjóð og það má vel vera með í athugasemdum að honum sé ætlað að mæta kostnaði við uppbyggingu flugvalla. En hvort það er einmitt sú upphæð sem þarf á hverjum tíma liggur í sjálfu sér ekkert fyrir um.

Ég tel að gjalda eigi varhuga við því að ráðstafa eigi formlega skatti til einhverra sérstakra ákveðinna verkefna sem slíkum. Hann rennur í ríkissjóð og ríkissjóður getur litið svo á að tekjur af honum séu m.a. til þess að mæta ákveðnum kostnaði, en beina tengingu á milli ákveðinna sérgreindra verkefna og skatts er ekki hægt að hafa með þeim hætti að látið sé að því liggja að skatturinn renni í einhvern skilgreindan sjóð. En það er ekki svo í skilgreiningu skattanna sem slíkra. Hins vegar má horfa á það varðandi þjónustugjöldin að þau eigi að mæta skilgreindum verkefnum.

Ég vil bara draga það fram í umræðunni að menn haldi mjög vandlega til haga aðskilnaðinum á skýringunni á formlegum skatti og þjónustugjöldum, bara hreint stjórnsýslulega séð.