Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:46:01 (6651)

2004-04-23 14:46:01# 130. lþ. 101.4 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að tilgangur með þessu frv. er að sjálfsögðu að reyna að girða svo um þetta mál að allir hlutir standist. Sá er tilgangurinn. En frumvarpið er samið og unnið m.a. með tilliti til þeirrar niðurstöðu sem prófessorinn Davíð Þór Björgvinsson komst að eftir að hafa skoðað málið mjög nákvæmlega. Frumvarpið byggir á því áliti sem hann vann fyrir okkur.

Hvað varðar það hvort búið sé að fá staðfestingu frá ESA þá held ég að það sé nú ekki venjan að fá eitthvert forálit sem er hægt að veifa. Ekki er um það að ræða. En haft var ríkt samráð við fulltrúa þeirra aðila. Ég vonast því til þess að ekki verði gerðar athugasemdir við þetta.

Fram kom tiltekinn misskilningur hjá hv. þm. sem talaði um að menn greiddu meira fyrir þjónustu vegna þeirra flugvalla sem þeir lentu ekki á. Það er út af fyrir sig ágætis uppsetning hjá þingmanninum. Það er nú bara þannig að það er greitt fyrir lendingargjöld og það er greitt fyrir öryggisgjald svokallað. Núverandi gjald heitir vopnaleitargjald. Mun hærri fjárhæðir eru því greiddar á grundvelli þeirra ákvæða en varaflugvallagjaldið er. Ábendingin er ágæt hjá hv. þm. engu að síður. En það er svo sannarlega greitt fyrir þjónustuna á þeim flugvelli sem er notaður.