Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:50:17 (6653)

2004-04-23 14:50:17# 130. lþ. 101.4 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, LS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:50]

Lára Stefánsdóttir:

Herra forseti. Þetta frv. sem hæstv. samgrh. leggur hér fyrir er auðvitað enn einn landsbyggðarskatturinn svo sem hefur verið og verður áfram. Við landsbyggðarfólk þurfum að fást við fjölmargt bara vegna þess að við viljum komast í einhverja þjónustu í höfuðborginni.

Þó að mér finnist 382 kr. falleg tala þá velti ég því sérstaklega fyrir mér í tengslum við þetta frv. hvernig hún er til fundin og hversu mikið fé menn reikna með að þeir afli með þessum sköttum sem er þá ráðstafað í samræmi við það sem hér var áður komið inn á.

Ég velti líka öðru fyrir mér varðandi gjaldið sem leggst á varaflugvelli. Nú hlýtur svo að vera háttað að flugvélar sem nota þjónustu frá Íslandi í ferðum sínum yfir hafið án þess að hafa gert nokkrar áætlanir um að lenda yfir höfuð á landinu, hljóta að gera ráð fyrir að geta nýtt þá tilteknu varaflugvelli sem finnast hér á landi og hafa svo sannarlega nýtt þá þegar það kemur upp. Engu að síður er gjaldið sjálft, 598 kr., reiknað miðað við þá umferð sem hefur verið um landið. Því velti ég fyrir mér hver þeirra kostnaður í þessu samhengi er við að geta nýtt tiltekinn varaflugvöll þegar þeir þurfa þess með einhverra hluta vegna.

Í þessu samhengi vil ég bara minna á kostnað í innanlandsflugi. Hvers vegna hann er svo hár sem raun ber vitni hef ég ekki hugmynd um. Menn mættu sannarlega íhuga hvers vegna flugfar milli Akureyrar og Reykjavíkur í sjálfsagðri þjónustu kostar um 20 þús. kr. Það er talsvert mikill kostnaður við að leita sér þjónustu hér eins og margir landsbyggðarmenn þurfa að gera. Ég sé svo sem ekki að þessar 382 kr. séu neitt stór baggi í því samhengi. Ég bið menn bara að hafa það ævinlega í huga þegar verið er að ræða innanlandsflug að fyrir okkur sem störfum mikið í fjarvinnu og þurfum að koma til funda og annað þá er sá kostnaður sem í flugsamgöngum felst talsvert mikill. Ég hvet því hæstv. samgrh. að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að gera okkur kleift að vinna eins mikið á jafnréttisgrundvelli og mögulegt er.

Ég ítreka spurningu mína um flugrekendur þeirra flugfélaga sem fljúga milli heimsálfa og sannarlega hljóta að gera ráð fyrir, ef eitthvað kemur upp á, að geta notað varaflugvelli á Íslandi en virðast ekki taka þátt í neinum kostnaði miðað við þær forsendur sem hér eru gefnar.