Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:55:43 (6655)

2004-04-23 14:55:43# 130. lþ. 101.4 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, LS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:55]

Lára Stefánsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svarið og sérstaklega þá áherslu sem fram kom í svari hans um innanlandsflug sem er gríðarlega mikilvægt og kostnaðarhlutfall þar. Hann bendir réttilega á eins og ég áðan að þessar 382 kr. eru svo sem ekki stóra málið. Ég er þó ekki alveg sannfærð um þá sem lenda ekki hér á landi en hljóta að vera að greiða eitthvað hér fyrir flugleiðsögn og annað. Ég veit auðvitað ekki nákvæmlega hvernig þeim greiðslum er háttað en einhverjar greiðslur eiga sér stað. Þeir þyrftu þá í rauninni samt sem áður eitthvað að taka þátt í þessum viðbúnaði ef eitthvað skyldi koma upp á. Það er fullkomlega eðlilegt að hafa það í huga.

Að öðru leyti vona ég bara að hæstv. samgrh. gangi vel að finna leiðir til að lækka ferðakostnað í lofti milli landshluta.