Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:56:57 (6656)

2004-04-23 14:56:57# 130. lþ. 101.4 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:56]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka undirtektir þingmanna við þetta frumvarp. Mjög miklu skiptir að við getum lokið afgreiðslu þess fyrir þingslit í vor. Þess vegna þakka ég þá greiðu vegferð sem það hefur hlotið það sem af er. Af mörgu er að taka þegar litið er yfir efni frumvarpsins og óþarfi er að endurtaka það.

En vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. sem síðastur talaði þá er alþjóðaflugþjónustan sem veitt er héðan frá Íslandi vegna yfirflugs og staðsett í Reykjavík, rekin á vegum Flugmálastjórnar eftir sérstökum samningi við Alþjóðaflugmálastofnunina ICAO. Þessi samningur gerir ráð fyrir því að við Íslendingar veitum yfirflugsþjónustu hér og fyrir það er greitt. Við höfum af þessu heilmiklar tekjur en að sjálfsögðu þurfum við að greiða kostnað vegna þjónustunnar og það á að standa undir sér. Þessi þjónusta er sem sagt veitt hér af okkur Íslendingum og er mjög umfangsmikill rekstur. Um það er hins vegar ekki fjallað í þessu frumvarpi.

En lögin sem við erum að fjalla hér um og frumvarpið sem lagt er fram á að tryggja áframhaldandi uppbyggingu og áframhaldandi starfsemi og rekstur flugvallanna í landinu. Það er mjög mikilvægt. Ég vona að okkur megi takast að taka vel á, ekki síst hvað varðar innanlandsflugið sem er að vaxa mjög mikið. Við höfum upplýsingar um það. Það eru fréttir af því í fjölmiðlum í dag að innanlandsflugið er að styrkjast mjög mikið. Það er í fyrsta lagi, tel ég vera, að sjálfsögðu vegna þess að meiri þörf er fyrir flutninga innan lands. Það er mikill vilji til þess að nýta sér flugið.

Í annan stað þá höfum við stórbætt aðstöðuna með uppbyggingu á Reykjavíkurflugvelli, stórbætt öryggi í flugi. Við höfum stórbætt aðstöðu á flugvöllunum um allt land og erum að vinna að því áfram. Síðast en ekki síst höfum við mótað þá stefnu að bjóða út flugleiðir til jaðarbyggðanna og hafa ekki staðið undir sér. Ríkissjóður hefur veitt þar stuðning og skapað þar með flugfélögunum miklu sterkari stöðu til að veita þjónustu og e.t.v. lækka gjaldið í innanlandsfluginu, þó ýmsum þyki það mega lækka enn meira en þegar hefur orðið.

Ég spái því að með auknu flugi muni fargjöld lækka og með bættri aðstöðu á flugvöllum muni það gerast og að innanlandsflugið muni eflast okkur öllum til hagsbóta í landinu.