Loftferðir

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 15:25:51 (6659)

2004-04-23 15:25:51# 130. lþ. 101.2 fundur 945. mál: #A loftferðir# (Montreal-samningurinn, EES-reglur o.fl.) frv. 88/2004, 946. mál: #A alþjóðasamningur um loftflutninga milli landa# frv. 52/2004, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frv. um breytingu á lögum um loftferðir. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra eru nokkur atriði sem tekið er á í frv., m.a. er verið að breyta fjárhæðum í lendingargjöldum í millilandaflugi. Það er verið að taka á vopnaleitargjaldinu, verið er að lögfesta alþjóðasamning, Montreal-samninginn, og síðan er verið að fella út ákveðin atriði úr gildandi lögum varðandi þessi gjöld.

Vegna þeirrar umræðu sem farið hefur fram hér um þessi málefni ferðaþjónustunnar og flugsins vil ég byrja á því að gagnrýna hversu seint þau mál koma fram í þinginu. Sérstaklega hvað snýr að gjaldtökunni og því máli sem rætt var aðeins fyrr á fundinum, vegna þess að ljóst var strax í haust að taka þyrfti á þeim málum og fara þyrfti af stað vinna. Búið var að koma athugasemd til íslenskra yfirvalda um að þeim væri ekki stætt á því að standa að gjaldtöku í fluginu á þann hátt sem gert var, og ástæðan fyrir því að við samþykkjum afbrigði vegna þessara mála er m.a. sú að enn er verið að innheimta gjöld sem EFTA-dómstóllinn hefur dæmt svo að íslenskum stjórnvöldum sé ekki heimilt að standa þannig að gjaldtöku lengur.

Auðvitað eru ýmsir fleiri þættir í þessum þingmálum sem eru nokkuð umdeildir að mínu mati. Hér er t.d. verið að hækka álögur á ferðaþjónustuna, þó svo að hæstv. ráðherra hafi talað í aðra veru. Vil ég aðeins minna á ræðu sem hann hélt á þingi ferðaþjónustunnar, á ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs á Mývatni þar sem hann talaði einmitt um þá farþegaskatta sem við erum að ræða í dag og þar talaði hæstv. ráðherra í þá veru að hann hefði látið athuga áhrif þeirra skatta á flugið og hafi fengið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til þess að meta áhrif farþegaskattanna á t.d. fjölda flugfarþega og komið hafi í ljós að áhrif þeirra skatta væru mun meiri en áður hefði verið talið. Þar sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Verðlagning ferðaþjónustu skiptir mjög miklu máli í því samkeppnisumhverfi sem við hrærumst í. Ég tel óhjákvæmilegt að taka þessa skattlagningu til endurskoðunar og mun beita mér fyrir breytingu á álagningu farþegaskatta til hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna.``

Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvort sú leið sem hér er farin sé í raun til hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna og vildi gjarnan fá fram hjá hæstv. ráðherra áður en umræðunni lýkur hvort skoðað hafi verið hvort sú leið sem hæstv. ráðherra er að fara sé í raun og veru til hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna.

Ég vil þess vegna gera að umtalsefni fyrsta atriðið í því frv. sem við ræðum hér, um loftferðir, þ.e. lendingargjöldin í millilandaflugi. Þar er verið að breyta viðmiðuninni úr bandaríkjadölum yfir í íslenskar krónur og er útfærslan miðuð við það.

[15:30]

Ég leyfi mér að hafa ákveðnar efasemdir um þá leið sem hæstv. ráðherra er að fara í þeim efnum og tel að hún muni torvelda samninga t.d. við lággjaldaflugfélögin sem hafa haft áhuga á að koma hingað og lenda á Keflavíkurflugvelli. Þetta mun gera þeim erfiðara fyrir. Þau þurfa að gera fjárhagsáætlanir og meta hvort það er hagkvæmt að lenda hér. En eftir að lendingargjöldunum var breytt yfir í íslenskar krónur mun það skipta máli hvert gengi krónunnar er, staða hennar og stöðugleiki. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef meta menn það svo að þetta muni torvelda slíka samninga, a.m.k. þeir sem ég hef haft samband við og þekkja þessi mál mun betur en ég.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann hafi velt því fyrir sér þegar hann ákvað að breyta lendingargjöldunum og miða við íslenskar krónur að það gæti komið niður á ferðaþjónustunni hvað varðar ódýrari fargjöld og flug lággjaldaflugfélaganna til Keflavíkur.

Í ljósi þess að lendingargjöldin koma alfarið til rekstrar á Keflavíkurflugvelli hefði ég talið fulla ástæðu til þess að menn skoðuðu reksturinn þar og spyr hæstv. ráðherra hvort ekki þyrfti að fara yfir reksturinn á flugvellinum í Keflavík í ljósi þess að menn eru að hækka lendingargjöldin.

Síðan langar mig að nefna vopnaleitargjaldið. Það er líka að hækka og hækkar næstum því um helming. Vopnaleitargjaldið er í dag 300 kr. og verður 570 kr. og breytir um nafn og kallast öryggisgjald. Það er því veruleg hækkun á gjaldinu. Hæstv. ráðherra sagði að núverandi gjald stæði ekki undir þeirri þjónustu sem verið væri að veita, en þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða í samgn. þegar málið kemur þangað.

Áður en ég held áfram að fara yfir frv. langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, því ýmis gjöld koma ofan á fargjald í flugi og þar á meðal afgreiðslugjald, hversu há afgreiðslugjöldin eru í Leifsstöð og hversu há gjöldin sem koma ofan á fargjald t.d. í millilandaflugi eru í heild.

Í sambandi við fyrra frv. sem hæstv. ráðherra talaði um fyrr á fundinum vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra. Nú erum við með forustuna í samstarfi í norrænu ráðherranefndinni og þar hefur hæstv. ráðherra tjáð sig mjög um mikilvægi ferðaþjónustunnar hér og að við þurfum að efla hana, sérstaklega hvað varðar menningartengda ferðaþjónustu. Munu þær breytingar sem hér eru á ferðinni létta það starf, í ljósi þess að við erum að sækja mun meira fjármagn í ferðaþjónustu í vasa ferðamanna með öllum þeim gjöldum sem verið er að leggja á? Þó ég tali um gjöld er, eins fram hefur komið í umræðunni, talað um flugvallaskatt í dag en ekki gjald eins og hefur verið.

Mig langar líka aðeins að minnast á varaflugvallagjaldið í fyrra frv., vegna þess að ég hafði ekki tök á því að koma inn í umræðuna þegar rætt var um það. Ég velti því fyrir mér hvernig hægt sé að leggja varaflugvallagjald á farþega sem fara alls ekki um varaflugvöll, hvort það sé heimilt vegna þeirra reglna sem við búum við að tekið skuli gjald fyrir veitta þjónustu, það eru strangar reglur um að það þurfi að vera sá háttur á. Hverja má rukka um varaflugvallagjald? Einungis þá sem fara um einhverja flugvelli hér, eða jafnvel þá sem fljúga hér yfir og fara um flugstjórnarsvæðið og þurfa e.t.v. á varaflugvöllunum að halda ef eitthvað kemur upp á? Þetta er matsatriði en vissulega ástæða til að skoða það.

Mig langar að snúa aftur að loftferðafrumvarpinu sem við ræðum hérna. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði áðan að alls kyns hagræðing og réttarbætur koma í lagasetninguna við að lögleiða þennan alþjóðasamning, Montreal-samninginn. Vissulega er það til verulega til bóta, og ég get talað sem gamall fararstjóri í þeim efnum, að geta bókað alla hópa á einum farseðli eins og heimilað er með samningnum. Einnig er mikilvægt að þar er kveðið á um að það verði að upplýsa betur um réttindi til flugfarþega o.s.frv. Ég ætla ekki að endurtaka öll þau atriði sem hæstv. ráðherra nefndi, en vissulega eru þarna margir þættir sem við erum að lögfesta til bóta og skýra réttindi þeirra sem ferðast í flugi.

Ég tel að við þurfum að fara rækilega yfir málið í nefndinni. Við þurfum að kalla til umboðsmenn lággjaldaflugfélaga vegna lendingargjaldanna og alla þá sem eru í þessari þjónustu og hefðu e.t.v. hug á að bjóða upp á flug, hvort þetta komi illa niður á þeim að viðmiðunin sé íslenska krónan. Sömuleiðis þurfum við að ræða þessi mál við aðila ferðaþjónustunnar og fá upplýsingar um það hvernig þetta kemur við þá þjónustu. Ég mun leggja fram óskir við þá aðila sem ég tel að við þurfum að ræða þessi mál við þegar málið kemur til nefndarinnar, vegna þess að ég á sæti í hv. nefnd. En ég vil gjarnan fá svör við þeim spurningum sem ég hef þegar spurt hæstv. ráðherra, t.d. hversu há gjöldin eru á hvern farseðil í heild með afgreiðslugjöldunum og hvort menn hafi íhugað stöðu t.d. Keflavíkurflugvallar gagnvart því að semja við þessa aðila og hvort ekki þurfi að fara yfir reksturinn á Keflavíkurflugvelli í ljósi hærri lendingargjalda.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.